Afskrifuðu þúsundir milljarða

Reykjavík séð frá Hallgrímskirkjuturni
Reykjavík séð frá Hallgrímskirkjuturni Ómar Óskarsson

Skuldir íslenskra fyrirtækja náðu áður óþekktum hæðum árið 2008 og fóru þá í 25.015 milljarða króna. Verulega gekk á skuldirnar við bankahrunið og voru þær komnar niður í 20.163 milljarða króna í árslok 2009. Afskriftir fjármálastofnana á skuldum fyrirtækja á árinu 2009 eru því 33,7 sinnum hærri en afskrftir til heimila frá hruni.

Tölurnar um skuldalækkunina eru fengnar úr Tíund, tímariti ríkisskattstjóra, og er samanburðurinn grundvallaður á þeim.

Segir í tímaritinu að félög hafi verið gjaldþrota og skuldir afskrifaðar. Niðurstaðan hafi verið lækkun skulda um 4.852 milljarða króna á árinu 2009.

Upphæðin vekur athygli, ekki síst í ljósi þess að fyrir helgi sendu Samtök fjármálafyrirtækja frá sér tilkynningu þar sem sagði að hátt í 144 milljarðar af skuldum heimila, húsnæðisskuldir og bílalán, hefðu verið afskrifaðir í bankakerfinu frá hruni.

Þýðir það að skuldalækkun fyrirtækja á árinu 2009 var 33,7 sinnum hærri í krónum talið og er þá horft framhjá því að 4.852 milljarðar á gengi gamlársdags 2009 eru nú vel á sjötta þúsund milljarðar króna vegna verðbólguþróunar.

Skuldasöfnunin sló met

Orðrétt segir á blaðsíðu 47 í nýjasta hefti Tíundar.

„Það lítur út fyrir að skuldir félaga hafi lækkað nokkuð á milli áranna 2008 og 2009. Skuldir hafa hækkað frá ári til árs og náðu þær áður óþekktum hæðum árið 2008. Þá skulduðu íslensk félög 25.015 milljarða. Nú eru horfur á að skuldir fyrirtækja hafi lækkað nokkuð frá árinu 2008 og hafi verið um 20.163 milljarðar í árslok 2009, eða 4.852 milljörðum lægri en árið áður.

Mestu munar um að erlendar skuldir hafa lækkað um rúma 3.980 milljarða, skammtíma skuldir um rúma 2.176 milljarða og langtímaskuldir um rúma 1.803 milljarða. Þá lækkuðu framtaldar langtímaskuldir um tæpa 1.177 milljarða á milli ára. Hér gætir augljóslega áhrifa uppstokkunar sem varð í íslensku atvinnulífi í kjölfar falls bankanna. Félög hafa verið lýst gjaldþrota og skuldir hafa verið afskrifaðar.“  

Eigið fé rýrnaði mikið

Á næstu blaðsíðu, blaðsíðu 48, segir svo í tímaritinu um breytingar á eiginfjárstöðu fyrirtækja en til samanburðar var þjóðarframleiðsla um 1.500 milljarðar 2009.

„Sem fyrr segir minnkuðu samanlagðar eignir félaga um rúman 6.421 milljarð á sama tíma og skuldir lækkuðu um 4.852 milljarða. Mismunur á eignum og skuldum er eigið fé sem rýrnaði þar af leiðandi um 1.569 milljarða. Það lítur út fyrir að samanlagt eigið fé félaga hafi verið neikvætt um 1.517 milljarða í árslok 2009.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert