Vilja nánari skýringar frá ESB

Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel.
Höfuðstöðvar Evrópusambandsins í Brussel. Reuters

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið segir nauðsynlegt að fulltrúar Evrópusambandsins skýri með fullnægjandi og tæmandi hætti hvað átt sé við með þeim skilyrðum, sem sambandið setur fyrir því að hafnar verði samningaviðræður um landbúnaðarmál í tengslum við aðildarumsókn Íslands.

Evrópusambandið sendi íslenskum stjórnvöld í dag svonefnda rýniskýrslu sína um landbúnaðarmál þar sem fram kom sú skoðun, að Ísland sé ekki nægilega búið undir samninga um landbúnaðarmál í aðildarviðræðunum.

Segir ESB að íslensk stjórnvöld verði að leggja fram tímasetta vinnuáætlun, sem kveði á um hvernig Ísland hyggist verða að fullu reiðubúið til þess að njóta þess ávinnings og axla þær skyldur sem af aðildarsamningi leiða á fyrsta degi aðildar, samþykki íslenska þjóðin aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Í tilkynningu frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu segir, að ráðherra telji að liggja þurfi ljósar fyrir, að sú áætlunargerð sem ESB krefjist feli ekki í sér aðlögun né breytingar á lögum eða regluverki, áður en aðild hafi verið samþykkt.

Þá sé ekki sjálfgefið að lögð sé fram áætlun um verkefni sem samningsaðilar hafi ekki rætt um né komist að samkomulagi um hvort henti Íslandi.

„Ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála mun hér eftir sem hingað til leggja áherslu á að fylgja samþykkt Alþingis um aðildarviðræður en að sama skapi er brýnt að þau verkefni sem ráðist er í rúmist innan þeirra heimilda sem Alþingi hefur veitt,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert