Heilbrigðisstofnanir við þolmörk

Heilbrigðisstofnanir eru komnar að þolmörkum vegna niðurskurðar, segir í ályktuninni.
Heilbrigðisstofnanir eru komnar að þolmörkum vegna niðurskurðar, segir í ályktuninni. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Heilbrigðisstofnanir eru þegar komnar að þolmörkum í hagræðingu og sparnaði í rekstri.  Lengra verður ekki gengið án þess að það komi verulega niður á þeirri þjónustu sem veitt er í dag, að því er segir í ályktun stjórna Landssambands heilbrigðisstofnana og Félags forstöðumanna sjúkrahúsa.

„Eftir niðurskurð síðustu ára geta stofnanir heilbrigðiskerfisins vart uppfyllt skyldur sínar við skjólstæðinga. Verði framlög enn minnkuð verður stofnunum heilbrigðiskerfisins ókleyft að rækja þær án verulegra breytinga á þjónustu,“ segir m.a. í ályktuninni.

Þá óska stjórnirnar eftir því að velferðarráðuneytið gefi út yfirlit um hlutfallslegan niðurskurð á hinum einstöku heilbrigðisstofnunum landsins árin 2008-2011.

Innan vébanda Landssambands heilbrigðisstofnana eru framkvæmdastjórnir allra heilbrigðisstofnana á Íslandi og Félag forstöðumanna sjúkrahúsa er félagsskapur forstjóra heilbrigðisstofnana.  Í fréttatilkynningu segir að það sé einsdæmi að þessi félög sendi frá sér slíka ályktun en hún var send velferðarráðherra s.l. mánudag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka