Öskufok og svifryk á landinu

Öskufok í Mýrdal í dag.
Öskufok í Mýrdal í dag. mbl.is/Jónas

Töluvert öskufok er á miðju sunnanverðu landinu og er þar líklega um að ræða gosösku úr báðum gosum. Á höfuðborgarsvæðinu er einnig svifryk en það á sér aðallega upptök í jökulleirum suður af Langjökli samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Alhvöss norðaustanátt er á landinu og skraufþurrt á gossvæðum á Suðurlandi. Að sögn veðurfræðings á Veðurstofunni á askan sem fýkur yfir Suðurland líklega uppruna sinn í bæði gosinu í Eyjafjallajökli og í Grímsvötnum.

Spáð er minnkandi norðanátt á morgun og þó þarf ekki mikinn vind til að hreyfa öskuna vegna þess hversu þurrt er. Hægviðri verður á miðvikudag og á fimmtudag á að byrja að rigna.

Eins og áður segir á svifrykið á höfuðborgarsvæðinu uppruna sinn við Langjökul en slíkt gerist reglulega á sumrin.

Á vef bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA má sjá gervihnattamyndir sem sýna glögglega hvernig askan fýkur yfir landið. Hægt er að nálgast myndina hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert