Fundur svo lengi sem þörf er á

Ekkert samkomulag er um þinglok.
Ekkert samkomulag er um þinglok. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Meirihluti Alþingis samþykkti í dag að halda kvöldfund. Ekkert samkomulag er um þinglok. Stjórnarliðar saka stjórnarandstöðuna um að bera ábyrgð á því að ekki hafi náðst samkomulag um þinglok. Stjórnarandstaðan segir stjórnarliða bera ábyrgð á þessu.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, forseti Alþingis, sagði að fundur stæði svo lengi sem þörf væri á. Tillaga um að halda kvöldfund var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 19. Þrír þingmenn sátu hjá. Álfheiður Ingadóttir, varaforseti Alþingis, sagði flest benda til að þingið stæði í „allmarga daga enn“.

Löng umræða varð um tillögu forseta um kvöldfund. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði að kenna mætti þvermóðsku stjórnarandstöðunnar um það að ekki hefði náðst samkomulag um þingstörfin. Hún og fjármálaráðherra hefðu lagt fram tillögur um málamiðlun, en þeim hefði verið hafnað.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, mótmælti þessu og sagði að forsætisráðherra hefði ein krafist þess að tvö umdeildustu málin, um Stjórnarráðið og gjaldeyrislög, yrðu kláruð á þessu þingi. Aðrir hefðu verið til í að ljúka málinu. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tók í sama streng og sagði hægt að ljúka fundum á skömmum tíma ef forsætisráðherra sýndi vilja til samstarfs við stjórnarandstöðuna. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sagðist vilja ljúka afgreiðslu þessara mála.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýndi málþófið og sagði að hægt væri að leysa málið ef fallist yrði á tillögu nokkurra þingmanna Framsóknarflokks um Stjórnarráðsfrumvarpið og hægt væri að leysa ágreining um gjaldeyrisfrumvarpið ef haldinn yrði einn fundur í þingnefnd. Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, gagnrýndi einnig málþófið, en sagði einnig hægt að leysa málið með því að samþykkja breytingartillögu Eyglóar Harðardóttur, Sivjar,  Árna Þórs Sigurðssonar og Margrétar Tryggvadóttur um stjórnarráðsmálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert