Greidd skuld glatað fé?

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, birtir á vef sínum í dag bréf frá ónafngreindum manni, sem segist hafa borgað um 14 milljónir af húsnæðislánum síðustu þrjú ár.

Nágranni hans hafi hins vegar hætt að borga af sínum lánum strax eftir hrun og banki hans bjóði honum nú gull og græna skóga vilji hann byrja að borga á ný.

Þegar ástandið var verst borguðum við hjónin upp undir 400 þúsund kr. á mánuði fyrir húsnæði. Og telur það nálægt 14 milljónir á 3 árum frá hruni.

Nágranninn hefur ekki borgað krónu. Ég fæ ekki krónu niðurfellda og honum er boðið gull og grænir skóga bara ef hann byrjar að borga aftur. Hvar er réttlætið? Hann fær að byrja með ca 85% veðsetningu núna og við stöndum 110% á sama tíma eftir að hafa greitt margar milljónir. Ég er ekki að segja að það eigi ekki að gera neitt fyrir þá sem voru óheppnir í hruninu. En er ekkert hægt að gera eitthvað fyrir þá sem stóðu sína vakt og hlustuðu á Jóhönnu í sjónvarpinu sem grátbað fólk um að halda áfram að borga sama hvað gengi á. Í dag líður mér eins og ASNA að hafa hlustað á hana og yfir höfuð lagt þetta á fjölskylduna að setja afborganir af húsinu í forgang yfir fjölskylduna. Við hefðum getað t.d. skroppið einu sinni  á ári til sólarlanda, eytt tíma saman og sleppt því að vinna þessar 30-40 yfirvinnustundir á mánuði til að ná að borga af húsinu.  Þá væri skuldastaða heimilins í „leiðréttingu” um þessar mundir.

„Lærdómur minn af þessu er að verða: Greidd skuld er glatað fé. Er markvisst verið að refsa þeim sem borguðu?" spyr maðurinn.

Heimasíða Margrétar Tryggvadóttur

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert