Lagði stein í götu álvers

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Af fundi iðnaðarnefndar Alþingis í morgun með Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra verður ekki annað ráðið en að vilji fjármálaráðherra hafi staðið til þess að leggja stein í götu álversins í Helguvík með því að hvetja til þess að hjá HS Orku yrði leitað annarra leiða til orkusölu. Þetta segir Jón Gunnarsson, fulltrúi sjálfstæðismanna í nefndinni.

„Ég byggi þessa skoðun mína á þeim gögnum sem ég hef séð. Í samkomulagsdrögum fjármálaráðuneytisins og Magma er sérstaklega talað um að Magma skuli leita annarra leiða við orkusölu og að þeir skuli vinna að því að auka viðskiptamannahóp sinn með sérstakri áherslu á fyrirtæki í umhverfisvænum iðnaði,“ segir Jón.

Hann segir ráðuneytið hafa sett þetta fram á sama tíma og sú vitneskja hafi legið fyrir að allrar þeirrar orku sem var til staðar hafi verið þörf til þess að álverið í Helguvík gæti orðið að veruleika. Því hafi ekki verið reynt að tryggja álverinu þá orku sem það þurfti í fyrsta áfanga, til að geta komist af stað.

„Ég dreg þá ályktun að þrátt fyrir allar yfirlýsingarnar sem hafa verið gefnar um að ríkisstjórnin hafi ekki lagt stein í götu álversframkvæmda suður frá, þá sé það staðfest með þessari áherslu þeirra, að þeir hafi verið að biðja HS Orku og Magma um að leita annarra leiða í orkusölu og það er ekkert minnst á að tryggja álverinu í Helguvík forgang að þeirri orku sem í boði var. Hefðu þeir viljað leggja áherslu á það, þá hefði það væntanlega verið í þessum samkomulagsdrögum.“

Magma-málið var eina málið á dagskrá nefndarinnar og óskuðu stjórnarandstöðuþingmenn í nefndinni eftir því að fjármálaráðherra kæmi á fund nefndarinnar og gerði grein fyrir máli sínu.

Á minnisblaði, frá 12/3/2010, kemur fram að Íslandsbanki vilji fá staðfestingu á samkomulagi sem fjármálaráðherra og Ross Beaty forstjóri Magma gerðu með sér um að Magma mætti eiga allt að 50% hlut í HS Orku á móti innlendum aðilum.
Fjármálaráðherra sagði á fundinum að í minnisblaðinu kæmi fram oftúlkun viðkomandi embættismanns sem skrifaði minnisblaðið.

„Ég spurði að því sérstaklega hvort einhver tilraun hefði verið gerð af hálfu ráðuneytisins til að leiðrétta það, en svo var ekki,“ segir Jón.

„Mér finnst skýringar fjármálaráðherra ekki standast neina skoðun,“ segir Jón. „Í lok fundar iðnaðarnefndar lagði ég til að nefndin myndi sameinast um yfirlýsingu um að þetta mál yrði rannsakað af hlutlausum aðilum.  Formaður nefndarinnar vildi ekki taka það mál til umræðu núna.“

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert