„Þetta er algjörlega óþolandi“

Ragnheiður Ríkarðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins
Ragnheiður Ríkarðsdóttir þingmaður Sjálfstæðisflokksins mbl.is/Ómar

„Þetta er algjörlega óþolandi,“ sagði Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, eftir að hún frestaði þingfundi á Alþingi í fimm mínútur en hún sat á stóli forseta Alþingis. Ástæðan var sú að ekki gekk að fá hljóð í þingsal og urðu þingmenn í ræðustóli fyrir sífelldum truflunum.

Þegar fundi var frestað var Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, að veita andsvar við ræðu Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks. Bæði Vigdís og Jón kvörtuðu ítrekað yfir hávaða í þingsal, sérstaklega frá efnahags- og viðskiptaráðherra, og reyndi forseti ítrekað að fá þögn í þingsal, en án árangurs.

Að lokum hótaði Ragnheiður því að fresta fundi í fimm mínútur til að funda með þingflokksformönnum og finna lausn á hávaðanum í þingsalnum. Hún lét fljótlega verða af hótun sinni.

Enn er rætt um stjórnarráðsfrumvarpið og eru tólf þingmenn á mælendaskrá. Boðað var í dag að þingfundur stæði jafn lengi og þörf krefur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert