Ekki hægt að skera meira niður

Landspítali.
Landspítali.

„Ekki er hægt að skera meira niður í rekstri Landspítalans. Æskilegt væri að gera nokkurra ára rammaáætlun fyrir sjúkrahúsið til að auðvelda rekstur hans og skipulag.“ Þetta sagði Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, á fundi í morgun. „Er einfalt mál að reka spítala?“  spurði hann.

Í erindi  sínu, sem haldið var á fundi stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála, sagði Björn að hrunið hefði hafist hjá Landspítala árið 2004, en það ætti reyndar við allar heilbrigðisstofnanir á landinu. „Landspítalinn varð fyrir harkalegri hagræðingu en aðrar stofnanir fyrir hrun,“ sagði Björn.

„Það er ekki hægt að breyta endalaust og ekki missa tökin. Við þurfum að fá að klára að endurskipuleggja okkur. Það er ekkert hægt að spara meira eða hagræða. Ef á að skera meira niður á næsta ári, þá verðum við að loka og slökkva ljósin,“ sagði Björn.

Hann sagði að æskilegt væri ef gerð væri 2-3 ára rammaáætlun fyrir sjúkrahúsið þannig að fyrirfram væri vitað hverjar fjárveitingarnar væru. „Þá er auðveldara að vita hvað á að ganga langt í breytingum,“ sagði Björn.

Hann sagði að í fjárlögum ársins 2008, sem hefðu ekki verið „nein sparnaðarfjárlög“, hefði fjármagn verið tekið af sjúkrahúsinu og fært til annarra heilbrigðisstofnana.

„Árið 2010 var starfsmönnum fækkað um 600 og yfirvinna lækkuð um 27%,“ sagði Björn um þær aðgerðir sem gripið var til í fyrra.

Hann sagði að þar sem starfsfólk sjúkrahússins hefði verið með í ráðum hefðu aðgerðir gengið best.

„Þetta varð til þess að við náðum að koma okkur réttum megin við strikið 2010 og fyrstu átta mánuði ársins í ár erum við rétt svo yfir strikið. Þetta er auðvitað frábær árangur hjá starfsfólki spítalans og þetta er engum öðrum að þakka,“ sagði Björn.

Hann sagði að eftir að sparnaður skall á sjúkrahúsinu af fullum þunga hefðu megináherslur Landspítalans verið öryggi sjúklinga og verkferlar.

Björn sagði að það hefði komið sér nokkuð á óvart að rannsóknir sýndu að þjónustu sjúkrahússins hefði ekki hrakað á niðurskurðartímum og benti á að á fyrstu átta mánuðum þessa árs hefði verið 8% aukning í innlögnum sjúklinga, 4% aukning í komum á bráðamóttökur og að skurðaðgerðum hefði fjölgað um 4%.

Björn Zoëga
Björn Zoëga
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert