Styðja launahækkun til lögreglumanna

Mikill meirihluti, eða 95,7% þeirra sem tóku afstöðu í könnun MMR fyrir Landssamband lögreglumanna, var frekar eða mjög fylgjandi því að byrjunarlaun lögreglumanna yrðu hækkuð.

Tæp 76% þeirra sem tóku afstöðu töldu að dagvinnulaun nýútskrifaðs lögreglumanns úr Lögregluskóla ríkisins ættu að vera 300 þúsund á mánuði eða hærri, þar af töldu 14,1% að dagvinnulaunin ættu að vera 400 þúsund á mánuði eða hærri. Fleiri konur en karlar töldu að byrjununarlaun lögreglumanna ættu að vera 400 þúsund á mánuði eða hærri eða 16,4% kvenna borið saman við 12,0% karla.

Byrjunarlaun lögreglumanns í fullu starfi eru nú  211.802 krónur.

Gagnaöflun fór fram dagana 14. til 17. september 2011 og fjöldi svarenda var 926. Könnunin var unnin meðal Íslendinga á aldrinum 18 til 67 ára. Úrtakið var valið með símakönnun og svörun fór fram á netinu.

Gerðardómur mun í lok vikunnar kveða upp úrskurð um launakjör lögreglumanna. Lögreglufélög víða um land hafa haldið fundi að undanförnu og ályktað um stöðu mála. Í ályktun Lögreglufélags Reykjavíkur, sem samþykkt var á fundi í gærkvöldi, segir m.a. að lögreglumenn geti ekki beitt verkfallsvopni í kjarabaráttu sinni líkt og aðrar stéttir hafi gert með viðunandi árangri.

„Vegna vopnlausrar baráttu okkar virðist ríkið ekki leggja mikla áherslu á að semja við lögreglumenn sem verða nú í annað sinn að lúta dómi gerðardóms í sinni kjarabaráttu," segir í ályktuninni. „Lögreglumenn eru þreyttir á ofríki því sem þeim er sýnt og skilningsleysi gagnvart neikvæðri launaþróun þeirra.  Við krefjumst leiðréttingar launa okkar miðað við launaþróun annarra stétta sl. 10 ár.  Lögreglumenn eiga betra skilið frá ríkinu."


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert