Þurfa að framlengja bótarétt

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Stjórnvöld þurfa að framlengja rétt til atvinnuleysisbóta því að öðrum kosti gætu upp undir þúsund manns misst bótarétt sinn og sveitarfélögin eru ekki í neinni stöðu til að taka við framfærslu þeirra, hvað þá að stuðla að því að þeir komist aftur út á vinnumarkaðinn.

Um þetta er samhljómur í miðstjórn ASÍ, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ en miðstjórnin fundaði í dag á Selfossi.

Réttur til atvinnuleysisbóta rennur út hafi viðkomandi verið lengur en þrjú ár á bótum. Þá getur viðkomandi sótt um framfærslufé frá sínu sveitarfélagi. Í kjölfar hrunsins 2008 samþykkti Alþingi að setja bráðabirgðaákvæði í lögin sem framlengdu þennan rétt um eitt ár. Á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að sá sem missti vinnuna 1. mars 2008 eða síðar hafi rétt til atvinnuleysisbóta í samtals fjögur ár. Þessi bráðabirgðaheimild rennur út um áramótin.

Dökkar atvinnuhorfur í vetur

„Þetta er nokkuð sem við höfum mjög miklar áhyggjur af, einfaldlega vegna þess að atvinnuleysi er enn mjög mikið og horfur dökkar fyrir veturinn,“ segir Gylfi. Ríkið geti ekki sett málefni þeirra sem myndu missa bótarétt sinn yfir til sveitarfélaganna sem séu engan veginn í stakk búin til að taka við því verkefni. „Við erum ekki komin út úr þessum vanda ennþá og allar spár benda til að atvinnuleysi fari hratt vaxandi aftur þegar skammdegið fer að vaxa aftur.“

Gylfi segir jafnframt að miðstjórnin telji að endurskoða þurfi bráðabirgðaákvæði um hlutastörf sem eru að hluta fjármögnuð af Vinnumálastofnun. Mjög mikilvægt sé að slík heimild sé til staðar og hún hafi víða gagnast, m.a. í prent- og byggingariðnaði. Í niðursveiflu hafi fyrirtæki getað komist hjá uppsögnum og þannig bæði haldið í fólk og þekkingu. Nú virtist raunar sem það væru einkum opinberar stofnanir og fyrirtæki sem nýttu sér þessa heimild og dæmi væru um að fólk hefði verið í slíkum hlutastörfum í þrjú ár. „Þá er þetta bara niðurgreiðsla á launakostnaði og það gengur ekki, það var ekki markmiðið með þessu,“ segir Gylfi. Hæfilegra væri að slík hlutastörf myndu vara í sex mánuði eða svo.  

Gjaldmiðillinn orsakavaldur verðbólgu og óstöðugleika

Hvað varðar kjarasamningana og efnahagsmálin segir Gylfi ljóst að gjaldmiðillinn leiki enn lykilhlutverk. „Hann er búinn að vera mikill orsakavaldur aukinnar verðbólgu og óstöðugleika, rétt einu sinni,“ segir hann. Nú þegar menn væru smám saman að ná tökum á ríkisfjármálum yrði ríkisstjórnin að setja gjaldmiðilsmálin í algjöran forgang. Innan miðstjórnarinnar hefðu menn miklar áhyggjur af að lítið bólaði á skýrri stefnu.

Miðstjórnin kynnti sér atvinnumál á Suðurlandi og segir Gylfi greinilegt að Suðurland og uppsveitir bjóði upp á einstök tækifæri, m.a. til vetrarferðamennsku. Fiskeldi á Flúðum og Eyrarbakka yki einnig bjartsýni sem og nýjungar hjá bændum sem væru farnir að bjóða upp á lúxusvöru, beint frá bónda.

Getum ekki endilega valið þá sem við viljum hafa samskipti við

Þá hefðu Sunnlendingar miklar væntingar til þess að hin mikla orka sem er á svæðinu myndi nýtast í heimabyggð.

Gylfi segir að möguleikar Íslendinga til raunverulegs hagvaxtar séu miklir og ríkisstjórn og sveitarfélög verði að vera undir það búin að taka á móti tækifærum en þyrftu ekki, þegar einhver bankaði loks upp á, að hefja langt umhverfis- og skipulagsferli. Undirbúningi þurfi helst að vera lokið fyrr, þ.e. að eins miklu leyti og mögulegt er.

„Við vitum að heimurinn er að glíma við mjög mikla bankakreppu. Það þrengir að bæði austan hafs og vestan. Fjármálakerfið stendur veikt. Við þessar aðstæður getum við Íslendingar ekki alveg valið við hverja við getum átt samskipti varðandi okkar atvinnuuppbyggingu. Það er erfitt fyrir öll fyrirtæki að sækja sér fjármagn. Það sníður okkur líka stakk,“ segir hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert