Starfsemi Barnaverndar lamast

Fundur verður hjá ríkissáttasemjara í dag.
Fundur verður hjá ríkissáttasemjara í dag. mbl.is/Golli

Komi til verkfalls félagsráðgjafa sem starfa hjá Reykjavíkurborg mun starfsemi Barnaverndar borgarinnar lamast. Aðeins átta starfsmenn stofnunarinnar verða þá eftir við vinnu. Páll Ólafsson, formaður Félagsráðgjafafélags Íslands, segist ekki trúa öðru en að Besti flokkurinn muni bæta stöðu þessarar kvennastéttar.

Takist ekki samningar við félagsráðgjafa skellur á verkfall á mánudaginn, en verkfallið nær til um 100 félagsráðgjafa sem starfa hjá borginni. Stuttur fundur var hjá ríkissáttasemjara í gær og annar fundur er boðaður í dag. Páll sagði að viðræðurnar væru á viðkvæmu stigi, en staðan væri alvarleg.

Páll sagði að kröfur félagsráðgjafa væru skýrar. Þeir vildu að byrjunarlaun félagsráðgjafa yrðu 400 þúsund, að eingreiðsla við upphaf samnings yrði 200 þúsund eða að samningurinn gilti frá 1. júní og að launamun við sambærilegar stéttir yrði útrýmt.

Páll sagði að kannanir sýndu að kynbundinn launamunur hjá Reykjavíkurborg væri gríðarlega mikill eða um 20%. Hann sagðist ekki trúa öðru en Besti flokkurinn vildi taka á þessum vanda.

Páll benti á að félagsráðgjafar hefðu að undanförnu verið að flýja frá borginni. Um 20% félagsráðgjafa hefðu að undanförnu farið til annarra starfa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert