Góða framlegð má þakka fyrirkomulagi veiða

Frá sjávarútvegssýningunni í Kópavogi.
Frá sjávarútvegssýningunni í Kópavogi.

Fyrirkomulag fiskveiða á Íslandi skýrir að miklu leiti góðu framlegð og verðmætasköpun í íslenskum sjávarútvegi. Þetta kemur fram í skýrslu Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar um sjávarútveg á Norðurlöndunum en aðal höfundur hennar er Audun Iversen, sérfræðingur hjá Nofima.

Skýrslan var kynnt á fundi sem Íslandsbanki, í samvinnu við Íslenska sjávarklasann, stóð fyrir í morgun í tengslum við Sjávarútvegssýninguna sem haldin er í Kópavogi.

Noregur og Ísland eru með mesta verðmætasköpun í fiskveiðum á Norðurlöndunum, Noregur með 6,3 milljarða og Ísland með 6,2 milljarða norskra króna.

Í skýrslunni segir að ef horft er á verðmætasköpun við framleiðslu sjávarafurða á íbúa  eru Færeyingar hinsvegar efstir á lista með 44.500 norskar krónur á íbúa, næstir koma Íslendingar með 27.000 norskar krónur á íbúa.

Verðmætasköpun á hvern starfsmann við fiskveiðar og fiskvinnslu er mestur hér á landi af öllum Norðurlöndunum, en Norðmenn eru með mestu verðmætasköpun í fiskeldi.

Framlegð í íslenskum sjávarútvegi er mun betri en í Noregi fyrir árin 2008 og 2009, en yfir lengra tímabil er minni munur.

„Verðmætasköpun fiskveiða á Íslandi er álíka mikil og í Noregi þó svo að magn og verðmæti sé tvöfalt meira í Noregi en hér á landi. Það er okkar niðurstaða að fyrirkomulag fiskveiða hér hafi stuðlað að þessari betri verðmætasköpun, til dæmis  þar sem  á Íslandi mega sjávarútvegsfyrirtækin stunda bæði veiðar og vinnslu, en í Noregi eru skil á milli þessara hluta starfseminnar. Þetta hjálpar Íslendingum á þann hátt að útgerðir geta haft meiri áhrif á gæði þess hráefnis sem þær svo vinna og selja heldur en t.d. í Noregi,“ segir Audun Iversen.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert