Lýsti yfir stuðningi við Palestínu

Össur Skarphéðinsson á allsherjarþingi SÞ í dag
Össur Skarphéðinsson á allsherjarþingi SÞ í dag

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lýsti því yfir á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í dag að íslensk stjórnvöld styddu umsókn Palestínumanna um aðild að SÞ og að þau hygðust leggja fram þingsályktunartillögu í næstu viku um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu.

Ráðherra sagði ennfremur  að Ísland myndi styðja ósk Palestínumanna, kæmi hún til kasta allsherjarþingsins. Utanríkisráðherra sagði í ávarpi sínu að viðurkenning á sjálfstæði Palestínu væri í anda sátta í Mið-Austurlöndum, það væri raunar heimskulegt að neita Palestínumönnum um sjálfstæði á sama tíma og krafan um lýðræðisumbætur færi um arabaheiminn.

Ráðherra ræddi þróunarsamvinnu og staðfesti að íslenskir þingflokkar hefðu, allir sem einn, samþykkt tímaáætlun um að ná þúsaldarmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um að leggja fram 0,7% af þjóðarframleiðslu til þróunaraðstoðar.

Hann ræddi mikilvægi þess að huga að umhverfismálum og loftslagsmálum og standa að grænni byltingu sem fælist m.a. í notkun endurnýjanlegra orkugjafa þar sem Íslendingar hefðu  margt fram að færa. Utanríkisráðherra lagði í máli sínu áherslu á áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðir, ekki síst lífríki sjávar, að því er segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert