Breytir engu um málsmeðferðina

Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari Alþingis.
Sigríður Friðjónsdóttir saksóknari Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta breytir ekki miklu fyrir undirbúning málsins og málsmeðferðina,“ segir Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, um niðurstöðu Landsdóms að vísa frá tveimur ákæruliðum af sex gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra.

Landsdómur taldi að þessir tveir liðir ákærunnar væru ekki nægilega skýrir og vísaði þeim frá. Þetta þýðir að efnislegur dómur verður felldur um hina fjóra liði ákærunnar.

„Það eru þarna tveir liðir sem Landsdómur telur að hafi ekki verið nægilega skýrir. Fyrri liðurinn, þ.e. fyrsti liður ákærunnar, er til fyllingar öðrum ákæruliðum eða eins og segir í úrskurðinum, „litið verði á hina almenna lýsingu á þessum lið sem hluti af ákæru í öðrum liðum hennar“. Þetta er því ekki sjálfstætt ákæruefni að mati Landsdóms.

Seinna atriðið, liður 1.2. í ákærunni, fer út en Landsdómur telur að hann heyri að hluta til undir annan ákærulið. Þetta breytir því ekki miklu fyrir undirbúning málsins og málsmeðferðina,“ sagði Sigríður í samtali við mbl.is.

Verjandi Geirs hefur gagnrýnt málsmeðferðina og gerði þess vegna kröfu um að málinu yrði vísað frá. Sigríður sagði að Landsdómur hefði í úrskurðinum farið í gegnum allar þessar röksemdir um galla á málsmeðferðinni. „Það liggur fyrir að um þessa málsmeðferð gilda sérlög. Það er það lagaumhverfi sem við búum við. Landsdómur túlkar þetta, eins og eðlilegt er, í takt við meginreglur sakamálalaganna, eins og raunar segir í lögum um Landsdóm. Það er því búið að skýra málsmeðferðina og málið komið í skýran farveg,“ sagði Sigríður.

Landsdómur mun á næstunni ákveða næstu skref í málinu í samráði við saksóknara Alþingis og verjanda Geirs. Það gerist með óformlegum hætti. Sigríður sagði að sækjandi og verjandi þyrftu tíma til að skila greinargerð. Það gæti tekið einhverjar vikur. Eftir að greinargerðum hefði verið skilað yrði aðalmeðferð í málinu ákveðin.

Tveimur ákæruliðum vísað frá

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert