Raunsætt að horfa krónu í höftum

mbl.is/Arnaldur

„Ég held þess vegna að raunsætt mat sé að við séum horfa á einhverskonar krónu og þá í einhverskonar höftum sem eru óhjákvæmileg til þess að hún geti lifað áfram,“ sagði Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, á opnum fundi í efnahags- og viðskiptanefnd í dag.

Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, spurði Árna Pál m.a. út í upptöku á öðrum gjaldmiðli en evrunni. Hún benti á að útlit sé fyrir að ekki verði hægt að taka upp evru fyrr en árið 2019 eða jafnvel 2021, þar sem Íslands hafi ekki uppfyllt Maastricht-skilyrðin. „Eigum við að lifa með krónuna þangað til,“ spurði Margrét.

Árni Páll segir að það sé galli á upptöku annars gjaldmiðils að þá verði stjórnvöld að skuldsetja íslenskan almenning til að kaupa þann erlenda gjaldeyri. Með upptöku evru í gegnum aðild að Evrópusambandinu fái Íslendingar gjaldmiðilinn gefins. Á þessu sé mikill eðlismunur.

„Vegna þess að ef við förum að skuldsetja almenning til að kaupa einhvern annan gjaldmiðil og setja hann í umferð þá erum við áfram óvarin gagnvart áhlaupi óvandaðra vogunarsjóða og braskara sem geta gert áhlaup á það magn sem við eigum af þessum gjaldmiðli. Þetta er veikleiki sem við komust aldrei út úr ef við ætlum að horfa á einhvern annan gjaldmiðil en evruna,“ sagði Árni Páll.

„Ég held þess vegna að raunsætt mat sé að við séum horfa á einhverskonar krónu og þá í einhverskonar höftum sem eru óhjákvæmileg til þess að hún geti lifað áfram. Það verður auðvitað efni umfjöllunarinnar þennan veturinn að finna út hver sú umgjörð gæti verið eða upptöku evru gegnum aðild að Evrópusambandinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert