Erfiðustu kaflarnir ekki opnaðir á næstunni

Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

„Það er ljóst mál að Evrópusambandið lítur ekki svo á að það verði á næstunni tekist á við stóru ágreiningsmálin sem uppi eru á milli Íslands og sambandsins svo sem í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Kaflarnir sem lúta að þessum tveimur málaflokkum verða ekki opnaðir strax,“ segir Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is.

Þriðju fundur sameiginlegrar þingmannanefndar Alþingis og Evrópuþingsins vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB fór fram í Brussel í dag en Einar var á meðal þeirra íslensku þingmanna sem sátu fundinn. Hann segir íslensku þingmennina á fundinum hafa spurt mjög eftir því hvenær sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin yrðu tekin fyrir og talið eðlilegast að þau yrði tekin strax til umræðu.

Aðspurður hvort fram hafi komið á fundinum hvenær kaflarnir tveir yrðu teknir fyrir segir Einar að fulltrúar ESB hafi forðast mjög að nefna einhverjar dagsetningar í því sambandi. „En ég held að það sé alveg ljóst mál að við séum frekar að tala um mánuði heldur en vikur."

Heimavinnan í landbúnaðarmálum ekki unnin

Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður utanríkismálanefndar Alþingis, staðfestir í samtali við mbl.is að sjávarútvegs- og landbúnaðarkaflinn verði ekki teknir fyrir strax að mati ESB. Hún segir að landbúnaðarmálin verði örugglega ekki tekin fyrir á þessu ári vegna þess að sjávarútvegsráðuneytið hafi ekki unnið þá heimavinnu sem sambandið hafi farið fram á að yrði gert áður en sá kafli yrði opnaður. Boltinn væri hins vegar hjá ESB varðandi sjávarútvegsmálin en tafir í þeim efnum væri að rekja til yfirstandandi breytinga á sjávarútvegsstefnu sambandsins.

Valgerður segir að fram hafi komið í máli fulltrúa ESB að aðildarferlið gengi að öðru leyti vel að þeirra áliti og samkvæmt áætlun. Þá hafi komið fram í máli þeirra að ekki þyrfti að ráðast í neinar breytingar á fyrirkomulagi landbúnaðarmála hér á landi samhliða viðræðum um málaflokkinn en hins vegar yrði að setja saman áætlanir um það hvernig staðið verði að þeim breytingum þegar þar að komi.

Auk Einars og Valgerðar sátu fundinn fyrir hönd Alþingis þau Árni Þór Sigurðsson og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Björgvin G. Sigurðsson, þingmenn Samfylkingarinnar, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður og formaður Framsóknarflokksins, og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert