Dregur úr ánægju með Jón Gnarr

Jón Gnarr er borgarstjóri í Reykjavík og Dagur B. Eggertsson …
Jón Gnarr er borgarstjóri í Reykjavík og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ánægja landsmanna með störf borgarstjórans í Reykjavík, Jóns Gnarr, hefur dvínað mjög mikið síðan fyrir ári en enn er hátt hlutfall svarenda sem segist hvorki ánægt né óánægt með störf hans, samkvæmt Þjóðarpúlsi Gallup fyrir október.

Nær helmingur svarenda er óánægður með störf borgarstjóra, nær þrír af hverjum tíu eru hvorki ánægðir né óánægðir og ríflega 21% er ánægt með störf hans. Á sama tíma í fyrra voru aðeins 17% óánægð með störf borgarstjórans.

Karlar eru frekar en konur ánægðir með störf borgarstjórans og fólk er ánægðara með störf hans eftir því sem það er yngra.

Reykvíkingar taka frekar afstöðu til starfa borgarstjórans en aðrir landsmenn og mikill munur er á ánægju fólks með störf hans eftir stjórnmálaskoðunum.

Þegar niðurstöðurnar eru skoðaðar sérstaklega fyrir Reykvíkinga eru rúmlega 52% óánægð með störf borgarstjórans og tæplega 24% ánægð, en rétt um 24% eru hvorki ánægð né óánægð.

Á sama tíma í fyrra voru aðeins tveir af hverjum tíu óánægðir en um 43% ánægð. Eins og á landsvísu eru karlar frekar en konur ánægðir með borgarstjórann og yngra fólk ánægðara en eldra fólk.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi sjö en Besti fengi 4 borgarfulltrúa

Nokkrar breytingar hafa orðið á fylgi í Reykjavík síðan síðasta könnun var gerð í mars á þessu ári. Helstu breytingar eru þær að fylgi Besta flokksins eykst um nær fjögur prósentustig frá því í mars og segjast nú nær 23% þeirra sem nefna flokk ætla að kjósa Besta flokkinn færu kosningar til borgarstjórnar fram í dag.

Að sama skapi minnkar fylgi við Vinstrihreyfinguna - grænt framboð um rúmlega þrjú prósentustig en um 10% segjast myndu kjósa flokkinn nú.

Nær 39% segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem er um prósentustigi minna en í mars en um 21% segist myndi kjósa Samfylkinguna sem er sama hlutfall og í mars. Rösklega 7% segjast myndu kjósa aðra flokka en þá sem eiga sæti í borgarstjórn Reykjavíkur í dag sem er aukning um prósentustig frá því í mars.

Rúmlega 14% svarenda taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp og ríflega 11% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa ef borgarstjórnarkosningar færu fram í dag.

Ef borgarfulltrúum er skipt milli flokka út frá niðurstöðum könnunarinnar fengi Sjálfstæðisflokkurinn sjö borgarfulltrúa, Besti flokkurinn fjóra, Samfylkingin þrjá og Vinstrihreyfingin - grænt framboð fengi einn borgarfulltrúa. Besti flokkurinn myndi því tapa tveimur borgarfulltrúum til Sjálfstæðisflokksins, frá síðustu borgarstjórnarkosningum.

 Þjóðarpúls Gallups.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert