Með húð og hári og fullri reisn

Feðgarðir Sigurður Hjartarson og Hörtur Gísli búnir að koma öllum …
Feðgarðir Sigurður Hjartarson og Hörtur Gísli búnir að koma öllum gripum Reðursafnsins í gám, sem fluttur verður frá Húsavík til Reykjavíkur. mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Það verður allt flutt suður, með húð og hári, og fullri reisn," segir Sigurður Hjartarson á Húsavík, sem í dag lagði lokahönd á flutning Reðursafnsins suður til Reykjavíkur, sem opnar þar í byrjun nóvember nk. ef allar áætlanir ganga eftir.

Verður safnið til húsa að Laugavegi 116, við hlið Tryggingastofnunar, skammt frá Hlemmi. Við stöðu safnstjóra tekur sonur Sigurðar, Hjörtur Gísli, en sjálfur segist Sigurður hafa fengið titilinn „ráðunautur“. Hann reynt að selja safnið en ekki tekist, því hafi sonur hans ákveðið að taka við safninu og flytja það suður til Reykjavíkur, en þar var safnið fyrstu sjö árin en hefur verið á Húsavík síðustu sjö ár. Saga Reðursafnsins nær því yfir 14 ár.

„Þetta er allt að bresta á bara hið besta mál. Það var kominn tími á að nútímavæða þetta og nútímavæðingin felst aðallega í því að ég er að hætta. Ég er bara hamingjusamur með þetta allt saman," segir Sigurður.

Í safninu er 281 reður, þar af einn af manni, en Páll Arason, ferðamálafrömuður á Bugi í Hörgárdal, ánafnaði safninu sinn reður á sínum tíma. Að auki eru 500-600 gripir á safninu sem tengjast reðrum á einhvern hátt; málverk, styttur og ýmsir aðrir munir. Spurður hvort von sé á að safnið fái fleiri reður af mannskepnunni segist Sigurður hafa vilyrði fyrir fleirum slíkum, m.a. frá einum hálfíslenskum manni búsettum í Bretlandi.

„Verkunin á Páli mistókst aðeins þannig að við þurfum að fá einn yngri og öflugri," segir Sigurður Hjartarson að endingu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert