Reykjavík athvarf ofsóttra höfunda

Frá blaðamannafundinum í gærkvöldi
Frá blaðamannafundinum í gærkvöldi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Bókmenntir eru spegill sálarinnar,” sagði Jón Gnarr borgarstjóri er hann ávarpaði blaðamannafund á bókastefnunni í Frankfurt í gær.

Þar var skrifað undir samkomulag þess efnis, að Reykjavík yrði ein af borgum ICORN, sem veitir ofsóttum rithöfundum athvarf. Undir það skrifuðu Jón og Peter Ripken, stjórnarformaður ICORN. Um 40 borgir hafa gengið í ICORN, þar á meðal Barselóna, Brussel, Frankfurt og Stokkhólmur.

Jón tilkynnti jafnframt að fyrsti höfundurinn væri væntanlegur í október til Íslands. „Það er búið að ákveða hvaða höfundur það er, en vegna aðstæðna og reynslu, þá er ekki unnt að gefa upp nafnið á honum, hver hann er og hvaðan hann kemur. Það hefur átt það til að hafa afleiðingar fyrir höfundana. Hann kemur í október eða nóvember, það vantar bara dvalarleyfi.”

Að öðru leyti sagði Jón um verkefnið: „Það er nú eiginlega Sjón sem átti frumkvæðið að því að sækja um og síðan hefur þetta farið í gegnum borgarkerfið og verið samþykkt  í borgarráði. Þetta er spennandi og fallegt verkefni.”

Þá var greint frá því á fundinum að Reykjavík væri bókmenntaborg UNESCO, ein af fimm borgum í heiminum, en hinar eru Edinborg, Melbourne, Iowa og Dublin. Pétur Gunnarsson las af því tilefni upp úr bók sinni Reykjavík og greindi meðal annars frá því að 900 ár hefðu liðið frá því fyrsti íbúi borgarinnar settist þar að, þar til sá næsti slóst í hópinn. Þá las Jón ljóðið Jesús kristur og ég eftir Vilhjálm frá Skáholti og Einar Örn Benediktsson ljóð eftir Braga Ólafsson og Dag Sigurðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert