Skipulagði verknaðinn í þaula

Gunnar Rúnar Sigurþórsson.
Gunnar Rúnar Sigurþórsson. mbl.is/Golli

Hæstiréttur segir í dómi sínum yfir Gunnari Rúnari Sigurþórssyni í dag, að Gunnar hafi skipulagt það í þaula þegar hann réði Hannesi Þór Helgasyni bana í ágúst í fyrra með það fyrir augum að ekki kæmist upp um hann.

Héraðsdómur Reykjaness hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að Gunnar Rúnar væri ósakhæfur. Vísaði dómurinn til matsgerðar og yfirmats þriggja dómkvaddra geðlækna sem allir komust að þeirri niðurstöðu að Gunnar Rúnar hefði á verknaðarstundu verið haldinn geðveiki í merkingu almennra hegningarlaga.

Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að þau sjónarmið, sem búa að baki refsilögum, mæli með því að umrætt lagaákvæði sé fremur skýrt þröngt en rúmt, enda hafi það að geyma undantekningu frá þeirri meginreglu að mönnum sé refsað fyrir afbrot er þeir hafa framið.

Hæstiréttur segir, að ekki verði hróflað við mati hinna dómkvöddu geðlækna en það álitaefni hvort Gunnar Rúnar hefði sökum geðsjúkdómsins verið alls ófær um að stjórna gerðum sínum umrætt sinn lúti endanlegri úrlausn dómstóla og þeir séu í því efni ekki bundnir af áliti matsmannanna.

Við þá úrlausn beri einkum að horfa til aðdraganda brotsins, hvernig Gunnar Rúnar stóð að því og framferði hans í kjölfar þess.

Segir Hæstiréttur að Gunnar Rúnar hafi skipulagt verknaðinn í þaula með það fyrir augum að ekki kæmist upp um hann, gengið ákveðið og skipulega til verks og síðan gert allt sem í hans valdi stóð til að aftra því að upp um hann kæmist. Einnig var bent á að Gunnar Rúnar hefði sjálfur borið að hann hefði að einhverju leyti gert sér grein fyrir því að hann hefði verið að gera eitthvað sem væri rangt.

Segir Hæstiréttur að með þessu sé talið leitt í ljós, að Gunnar Rúnar hefði borið skynbragð á eðli þess afbrots sem hann var ákærður fyrir og að hann hefði verið að því marki fær um að stjórna gerðum sínum þegar hann réðst að Hannesi Þór að hann teldist sakhæfur. Hafi ásetningur Gunnars Rúnars til að svipta Hannes Þór lífi verið einbeittur og hann eigi sér engar málsbætur.

Auk fangelsisdómsins var Gunnar Rúnar dæmdur til að greiða foreldrum Hannesar Þórs, hvoru um sig, 1 milljón króna í miskabætur. Gunnari Rúnari var jafnframt gert að greiða sambýliskonu Hannesar 1,2 milljónir króna í miskabætur en þau höfðu búið saman í eitt og hálft ár þrátt fyrir að vera ekki í skráðri sambúð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert