Allir kaflar opnaðir um mitt ár 2012

Fánar Evrópusambandsins.
Fánar Evrópusambandsins. Reuters

Evrópska fréttastofan Agence Europe hefur eftir íslensku samninganefndinni við Evrópusambandið, að utanríkisráðuneytið vonist til að um mitt næsta ár verði búið að opna alla samningskaflana í aðildarviðræðum Íslands að sambandinu. Sér í lagi kaflana um flóknustu úrlausnarefnin, þ.e. um sjávarútvegs- og landbúnaðarmál.

Samninganefndin segir að ráðuneytið lýsi yfir ánægju með það sem fram kemur í nýrri stöðuskýrslu ESB um umsókn Íslands. Utanríkisráðuneytið fagni skýrslunni sem undirstriki þá staðreynd að Ísland sé að mæta þeim efnahagslegu og pólitísku skilyrðum sem ESB hafi sett svo Ísland geti orðið hluti af ESB.

Það skrið sem sé komið á viðræðuferlið hjá íslensku samninganefndinni muni halda áfram.

Í júní sl., við upphaf formlegra aðildarviðræðna Íslendinga við Evrópusambandið, sagðist Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra vonast til þess að viðræður um helming samningsins færu fram í ár, þar á meðal um þá kafla sem væru afar þýðingarmiklir fyrir Ísland, þ.e um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál. Þá sagði hann að stefnt væri að því að ljúka viðræðum á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert