Fordæmalausar bréfaskriftir

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Ómar

Í bréfi sem forseti Íslands sendi forsætisráðherra á síðasta ári segir að sú hafi verið tilhneiging forustumanna ríkisstjórna á undanförnum árum og áratugum að fara út fyrir eðlileg valdmörk sín.

Segir í bréfinu, að málatilbúnaður forsætisráðuneytisins í bréfum, sem send voru til embættis forsetans í júní og júlí á síðasta ári sé rakalaus tilraun til íhlutunar í samskipti forsetaembættisins og Alþingis.

Bréf forseta Íslands var birt í dag í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Fjallað var um bréfaskipti forsetaembættisins og forsætisráðuneytisins í fjölmiðlum fyrr á þessu ári en þá neitaði forsetaembættið að birta bréfin sem embættið sendi. Forsætisráðuneytið birti hins vegar bréfin, sem það sendi.

Málið hófst 11. júní 2010 þegar forsætisráðuneytið sendi forsetaembættinu bréf og vísaði til skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Sagðist ráðuneytið telja rétt að óska eftir viðhorfum forsetaembættisins til þess hvernig staðið verði að því að setja reglur um hlutverk og verkefni forsetans og samskipti hans við önnur ríki og siðareglur forsetaembættisins.

25. júní áttu Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fund og þar sagði Ólafur Ragnar, að bréf forsætisráðuneytisins væri byggt á margvíslegum misskilningi. Bauð hann Jóhönnu að draga bréfið til baka svo forðast mætti að árétta skriflega þennan misskilning. 

Örnólfur Thorsson, forsetaritari, sendi forsætisráðuneytinu síðan bréf 29. júní þar sem segir, að á fundi forseta og forsætisráðherra þann 25. júní hafi komið fram að bréfið 11. júní byggi á margháttuðum misskilningi og því séu ekki forsendur til að bregðast frekar við því.  

Forsætisráðuneytið sendi þá annað bréf 1. júlí þar sem beiðnin var  ítrekuð. Þar segir m.a. að skilningur forsætisráðherra á fundi með forseta 25. júní 2010 sé annar en komi fram í svarbréfi forsetaembættisins. Þar hafi komið fram að forsetaembættið myndi koma sjónarmiðum sínum á framfæri með bréflegum hætti.

Þessu svaraði Ólafur Ragnar með bréfinu, sem birt var í dag. Segir þar m.a. að bréfaskriftir frá embættismönnum forsætisráðuneytisins, að borð við bréfin frá 11. júní og 1. júlí, eigi sé engin fordæmi enda sé efni þeirra og form hvorki í samræmi við stjórnskipan lýðveldisins, stöðu forsætisráðherra innan ríkisstjórnar né sjálfstæði forseta Íslands og Alþingis.

Forsætisráðuneytið sendi Ólafi Ragnari svarbréf, dagsett 15. júlí, þar sem sagði m.a. að bréfið hefði falið í sér beiðni um tilteknar upplýsingar en í því hefðu hvorki verið tilskipanir né „rakalaus tilraun til íhlutunar í samskipti forsetaembættisins og Alþingis“ eins og haldið væri fram í bréfinu „og er ástæða til þess að mótmæla þessari framsetningu af yðar hálfu.“

Bréf forseta Íslands

Telur að forsetaembættið eigi að afhenda bréf

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert