Landsfundur Samfylkingar hefst í dag

Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar.
Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

Landsfundur Samfylkingarinnar hefst í dag með ræðu formanns flokksins, Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Yfirskrift fundarins er jöfnuður – atvinna – velferð.

Bæði Jóhanna og Dagur B. Eggertsson varaformaður flokksins sækjast bæði eftir endurkjöri og hafa aðrir ekki boðið sig fram.

Auk hefðbundinna landsfundarstarfa þá liggja fyrir fundinum umfangsmiklar tillögur sem fela í sér grundvallar endurskipulagningu á starfi flokksins. Í fréttatilkynningu segir að tillögurnar séu afrakstur eins og hálfs árs umbótastarfs innan Samfylkingarinnar sem hófst skipulega í kjölfar útkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis í apríl 2010 og tók vinnuferlið m.a. mið af niðurstöðum skýrslunnar. Flokkurinn skipaði eigin umbótanefnd sem skilaði í desember 2010 ítarlegri greiningu og umbótatillögum sem ræddar voru á
fundum í öllum aðildarfélögum um allt land. Afrakstur þessa mikla starfs liggur nú fyrir landsfundi til umræðu og afgreiðslu.


Á fundinum flytur Richard Wilkinson prófessor erindi þar sem hann fjallar um orsakasamband jöfnuðar og velferðar.

Landsfundurinn er opinn félögum í Samfylkingunni. Nefndastarf er opið skráðum landsfundarfulltrúum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert