Mikið skortir á gagnkvæmt traust

Fjárfesting er í sögulegu lágmarki, segir í tillögu málefnahóps Samfylkingarinnar.
Fjárfesting er í sögulegu lágmarki, segir í tillögu málefnahóps Samfylkingarinnar. mbl.is/Golli

Í tillögu sem lögð verður fyrir landsfund Samfylkingarinnar í dag segir að beita þurfi öflugri hagstjórn til að efla tiltrúna á efnahagslífið, „því fjárfesting er í sögulegu lágmarki og mikið skortir á gagnkvæmt traust og þor til fjárfestinga í samfélaginu,“ segir í tillögu málefnanefndar um efnahagslega sókn. 

Þar segir að mikilvægasta verkefni landsstjórnar sé að vinna bug á atvinnuleysi „með markvissum og öflugum aðgerðum, s.s. orkunýtingu í anda verndar- og nýtingaráætlunar, hagfelldu rekstrarumhverfi fyrir venjuleg fyrirtæki og hvatningu til fjárfestinga og nýsköpunar í samstarfi við atvinnulíf og menntastofna.“

Áhersla er lögð á að efld verði tiltrú heimila og atvinnulífs á getu efnahagslífsins, að bæta skipulag hagstjórnar með stofnun Þjóðhagsstofnunar og auka samvinnu við aðila vinnumarkaðsins.

Örva hagvöxt með einkaframkvæmdum

„Að einkaframkvæmdir – í nánu samstarfi ríkissjóðs og einkaaðila undir skýrum samningsskilyrðum – verði aðgerð til að örva hagvöxt án þess að markmiðum um afkomu ríkissjóðs sé ógnað. Slíkar efnahagsaðgerðir eru góður kostur á tímum slaka í atvinnu- og efnahagslífi. 

Að stefna beri að upptöku evru í kjölfar aðildar að Evrópusambandinu og auðvelda þjóðinni þannig að tryggja stöðugt verðlag og vaxtakjör sem eru sambærileg því sem tíðkast í nálægum ríkjum. Að reka virka peningastefnu með tiltækum stýritækjum sem eflir verðmætasköpun, almenna velferð og heldur verðbólgu lágri,“ segir í tillögu málefnahópsins, sem tekin verður fyrir á landsfundi Samfylkingarinnar, sem hefst síðdegis í dag.

 

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert