Orkuveitan vill virkja Bitru

Af Hengilsvæðinu þar sem til stóð að byggja Bitruvirkjun
Af Hengilsvæðinu þar sem til stóð að byggja Bitruvirkjun Af vefnum hengill.nu

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur fékk kynningu á umsögn fyrirtækisins um Rammaáætlun Alþingis í dag.  Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og stjórnarmaður í OR segir að helsta gagnrýni Orkuveitunnar á áætlunina snúi að því að Bitra skuli vera sett í verndarflokk en ekki biðflokk, enda sé það hagsmunamál fyrir fyrirtækið að geta virkjað á svæðinu í framtíðinni.

Sóley segist í tilkynningu sem hún sendi frá sér, vera efnislega ósammála umsögninni og átelji harðlega að hún væri send í nafni fyrirtækisins án samþykkis stjórnar sem sannarlega fer með stefnumótunarhlutverk og er pólitísk skipuð.

Bókunin var svohljóðandi:

„ Fulltrúi Vinstri grænna gerir alvarlegar athugasemdir við verklag og efni umsagnar fyrirtækisins vegna þingsályktunartillögu um áætlun um verndun og orkunýtingu landssvæða. Það er með öllu óásættanlegt að umsagnir við lagafrumvörp séu unnar og sendar af hálfu stjórnenda fyrirtækisins án aðkomu og samþykkis stjórnar. Umsögn um rammaáætlun er stórpólitískt og stefnumótandi viðfangsefni og á ekki að vera í höndum starfsfólks Orkuveitunnar, enda ber því að vinna í samræmi við stefnu og áherslur stjórnar hverju sinni.

Skipulagsstofnun hefur kveðið skýrt á um að bygging Bitruvirkjunar myndi hafa veruleg neikvæð og óafturkræf áhrif á landslag, útivist og ferðaþjónustu. Í kjölfar þess álits var ákveðið í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að hætta við framkvæmdir á svæðinu og stendur sú ákvörðun enn. Ekkert bendir til þess að framkvæmdir framtíðarinnar myndu hafa minni áhrif og ekkert bendir til þess að stórbrotið landslag á svæðinu komi til með hafa minna gildi sem ósnortið til framtíðar.

Það er því ómögulegt að fallast á tillögu um að Bitra verði færð úr verndarflokki í biðflokk. Þvert á móti ætti að fara fram á að gengið yrði lengra í verndun Hengilssvæðisins. Má þar helst nefna Innstadal sem er ómetanlegt náttúrusvæði og ætti helst heima með Bitru í verndarflokki.

 Fulltrúi Vinstri grænna áréttar að umsögn sú sem hér hefur verið lögð fram er ekki unnin með vilja allrar stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur og fer fram á að bókun þessi verði send með umsögninni.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert