Hjörleifur: Hættum viðræðum við ESB

Steingrímur J. Sigfússon formaður VG flytur ræðu sína á landsfundinum …
Steingrímur J. Sigfússon formaður VG flytur ræðu sína á landsfundinum í dag. Til vinstr er táknmálstúlkur. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi ráðherra, lýsti í almennum stjórnmálaumræðum á landsfundi VG á Akureyri í kvöld yfir mjög mikilli andstöðu við viðræður Íslands við Evrópusambandið. Þráinn Bertelsson alþingismaður gagnrýndi hins vegar mjög sjónarmið Hjörleifs.

Ráðherrann fyrrverandi sagði að framundan væri „jarðsprengjusvæði“ í ESB-viðræðunum, sérstaklega þegar kæmi að sjávarútvegi og landbúnaði. Lítið fer fyrir málefnalegri umræðu á vegum flokksins, sagði Hjörleifur, á meðan áróður ESB flæði um samfélagið. Það væri ójafn leikur.

Verðum að horfa raunsætt á stöðuna

Hjörleifur spurði hvort VG myndi, ef svo ólíklega færi að tækist að hraða viðræðuferlinu og koma saman samningsdrögum fyrir næstu alþingiskosningar, skrifa undir þau ásamt Samfylkingunni og láta málið þannig fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. „Mun forysta VG sjá til þess að ekki verði látið undan óaðgengilegum kröfum ESB þannig að viðræðum verði sjálfhætt?“ spurði Hjörleifur.

„Verði ekki grundvallarbreyting á afstöðu og viðbrögðum flokks okkar gagnvart viðræðuferlinu mun VG standa uppi sem tvíhöfða þurs og flokkurinn rúinn trausti. Það er mál til komið að Vinstri hreyfingin - grænt framboð horfi raunsætt á þessa stöðu og þá ábyrgð sem á flokki okkar hvílir í stærsta máli sem þjóðin hefur borið frá því við náðum fullveldi 1918,“ sagði Hjörleifur Guttormsson, og að lokum: „Góðir félagar; eigum við ekki að nudda stírurnar úr augunum og líta á efnisatriði þess máls og það sem er í húfi fyrir aldna og óborna.“

Ekki hægt að segja mönnum að fara til fjandans

Þráinn Bertelsson, sem gekk til liðs við þingflokk VG ekki alls fyrir löngu, sagðist hafa boðið sig fram í síðustu kosningum fyrir flokk sem vildi sækja um aðild að ESB til þess að þjóðin gæti tekið ákvörðun um það sjálf, hvort hún gengi í Evrópusambandið. Hann sagðist hafa verið velkominn þegar ríkisstjórnin þurfti á honum að halda, þrátt fyrir afstöðu sína til ESB. „Kjósendur voru líka velkomnir og það er ekki hægt að segja þeim að fara til fjandans með þessarar miklu ESB-andúð og vera áfram leppríki Bandaríkjanna,“ sagði Þráinn.

Ungir blásarar léku Nallann, Internationalinn, við upphaf landsfundar VG í …
Ungir blásarar léku Nallann, Internationalinn, við upphaf landsfundar VG í Hofi á Akureyri í dag. mbl.is/Skapti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert