Engin lausn á kjaradeilum

Samninganefnd Sinfóníuhljómsveitar Íslands situr nú á fundi með viðsemjendum sínum hjá ríkissáttasemjara og verður fundi haldið áfram annaðhvort í kvöld eða á morgun. Fyrr í dag funduðu samninganefndir starfsmanna skipa Hafrannsóknarstofnunar þar án árangurs.

Að sögn Birgis Hólms Björgvinssonar, fulltrúa í samninganefnd Sjómannafélags Íslands, hefur aftur verið boðað til fundar fyrir hádegi á morgun en þá verða fimm vikur liðnar frá því að félagsmenn hans á skipum Hafrannsóknarstofnunar hófu verkfall.

„Ekki get ég nú sagt það en það er alltaf von eins og þeir segja,“ segir Birgir spurður hvort hann sé bjartsýnn á framhaldið. „Það gengur ekki vel og þetta er á sama stað og í byrjun. Það ber það mikið á milli.“

Ekki sé ennþá farið að ræða kröfur sjómanna, aðallega hafi verið rætt um kröfur ríkisins á hendur sjómanna um breytingar á kjarasamningi þeirra.

Þá er enn ósamið við yfirmenn á skipum stofnunarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert