Fá ekki leyfi hjá borginni

Mótmælendur sem kenna sig við Occupy Reykjavík hafa tjaldað á …
Mótmælendur sem kenna sig við Occupy Reykjavík hafa tjaldað á Austurvelli. mbl.is/Golli

Mótmælendur, sem kenna sig við Occupy Reykjavík, fá ekki leyfi hjá Reykjavíkurborg til að tjalda á Austurvelli. Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að búið sé að fjarlægja tjöld sem var komið fyrir á Austurvelli í nótt.

Geir Jón sagði í samtali við mbl.is að lögreglumenn á næturvaktinni hefðu orðið varir við það í nótt að aftur væri búið að tjalda á Austurvelli. Síðdegis í gær var mótmælendum gert að fjarlægja tjöldin þar sem þeir hefðu ekki fengið tilskilin leyfi hjá Reykjavíkurborg.

Geir Jón segir að þegar lögreglan hafi ætlað að taka tjaldbúðirnar í nótt þá hafi mótmælendurnir sagt að þeir hefðu fengið grænt ljós hjá borginni. Lögreglan aðhafðist því ekkert. „Þeir töluðu við þá og létu þá njóta vafans,“ segir Geir Jón og bætir við að málið hafi verið kannað hjá borgaryfirvöldum í morgun.

„Svo kom það í ljós að það var rangt. Þannig að þeim var gert að fjarlægja þetta,“ segir Geir Jón. Mótmælendurnir hefðu því ekki greint lögreglunni satt og rétt frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert