Fréttaskýring: Fjársýsluskattur af 45-49 milljörðum

Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir.
Oddvitar ríkisstjórnarflokkanna, Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir.

Ríkið mun hefja innheimtu 10,5% fjársýsluskatts af bönkum, lífeyrissjóðum og vátryggingafélögum frá og með næstu áramótum, verði lögfest frumvarp sem fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi í gær um skattinn.

Þessi nýja skattlagning hefur verið mjög umdeild allt frá því hugmyndir um hana voru fyrst kynntar þegar fjármálaráðherra lagði fram fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár. Nú er búið að útfæra hvernig álagningu skattsins verður háttað.

Skatttekjur ríkisins áætlaðar 4,7 til 5,1 milljarður á ári

Samkvæmt frumvarpinu verður skatturinn innheimtur í staðgreiðslu um hver mánaðamót.

Ef miðað er við núverandi starfsmannafjölda og launaþróun hjá þeim aðilum sem mynda stofn til útreiknings fjársýsluskattsins er áætlað að heildarskattstofninn gæti verið á bilinu 45–49 milljarðar kr. að því er fram kemur í greinargerð frumvarpsins. Skatttekjur ríkisins af fjársýsluskattinum eru því áætlaðar um 4,7–5,1 milljarður kr. á ári miðað við 10,5% skatthlutfall.

Lagður á launagreiðslur

Skatturinn verður lagður á heildarlaunagreiðslur fjármálafyrirtækja, alla þá sem stunda vátryggingastarfsemi og svo á lífeyrissjóði landsins. Þannig verður m.a. auk bankanna, verðbréfafyrirtækjum og verðbréfamiðlurum og rekstrarfélögum verðbréfasjóða gert að greiða skattinn.

Þá verður Íbúðalánasjóður líka skattskyldur samkvæmt lögum en Byggðastofnun verður hins vegar undanþegin skattlagningunni. Er ástæðan sögð sú að endurskoðun stendur yfir á starfsemi lánahluta Byggðastofnunar.

Skatturinn leggst á allar tegundir launa, skattskyldar launagreiðslur og þóknanir, s.s. biðlaun, nefndarlaun, stjórnarlaun, orlofsfé, ökutækjastyrki og dagpeninga, gjafir og risnufé sem teljast kaupuppbót, eftirgjöf lána, sem talin er koma í stað launa og á skattskyld hlunnindi s.s. fæði, fatnað o.s.frv. Einnig verður skatturinn lagður á mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóði.

Ýmsar aðrar greiðslur verða hins vegar undanþegnar skattskyldu s.s. eftirlaun og lífeyrir og greiðslur til starfsmanna í fæðingarorlofi að því leyti sem þær eru ekki umfram greiðslur sem launagreiðandi fær úr Fæðingarorlofssjóði.

AGS mælti með FAT-skatti

Í greinargerð frumvarps fjármálaráðherra er vitnað til umræðu um skattlagningu á fjármálafyrirtæki í Evrópu og á vettvangi OECD. Rannsóknir sýni að fjármálafyrirtæki beri hlutfallslega minni skatta en aðrar atvinnugreinar og þetta sé í endurskoðun eftir fjármálahrunið 2008. Fyrirmynd skattsins er sótt til Danmerkur og var ákveðið að taka upp svonefndan FAT-skatt (e. Financial Activities Tax) sem leggst á laun og hagnað fjármálafyrirtækja með svipuðu sniði og innheimtur hefur verið í Danmörku af fyrirtækjum sem eru undanþegin virðisaukaskatti. Þá er vísað til þess í rökstuðningi fyrir þessari skattheimtu að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi mælt með að FAT-skatturinn verði lagður á hagnað og laun starfsmanna hér á landi. Í frumvarpinu hafi hins vegar verið ákveðið að fara þá leið til einföldunar að skattleggja einungis heildarlaunagreiðslur.

Fjármálaráðherra hefur haldið því fram að þessi skattur sé ígildi virðisaukaskatts á fjármálaþjónustu. Fjármálafyrirtæki og vátryggingastarfsemi er í dag undanþegin virðisaukaskatti nema ef um þjónustu er að ræða, sem eingöngu er til eigin nota og er í samkeppni við aðra, sem ber að greiða virðisaukaskatt.

Í frumvarpinu er lagt til að samhliða upptöku fjársýsluskattsins verði undanþáguákvæðin felld brott þannig að nýi skatturinn komi í reynd í staðinn fyrir virðisaukaskattsundanþágu þessara fyrirtækja.

Fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins segir í umsögn sinni að áætlaðar tekjur af skattinum séu þónokkurri óvissu háðar. Gert sé ráð fyrir að hann skili 4,5 milljörðum á næsta ári. Stofnkostnaður vegna breytinga á tölvukerfum vegna skattsins og útgjöld við kynningu og innleiðingu hans geti orðið um 15 milljónir kr.

ÁHRIFIN Á RÉTTINDASÖFNUN LÍFEYRISSJÓÐANNA

1% skerðing á tíu árum

Áformaður fjársýsluskattur hefur fallið í grýttan jarðveg þeirra sem eiga að standa undir skattgreiðslunum. Talsmenn lífeyrissjóða halda því fram að rökin að baki þessum skatti eigi ekki við um lífeyrissjóði, sem hafi rétt eins og aðrir fjárfestar fengið þungan skell í bankahruninu.

Kostnaðarauki lífeyrissjóðanna yrði umtalsverður og að mati Landssamtaka lífeyrissjóða má ætla að afleiðingar skattlagningarinnar verði 1% skerðing lífeyrisréttinda á tíu ára tímabili.

Ljóst er að langstærsti hluti skattteknanna muni koma frá bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum eða um 80% að því er talið er skv. heimildum blaðsins. Ekki er lagt mat á þetta í frumvarpinu en þar kemur fram að í fyrra störfuðu 7.900 manns í fjármálaþjónustu, hjá lífeyrissjóðum og við vátryggingar. Voru heildarlaun þeirra að jafnaði 530 þúsund kr. á mánuði skv. Hagstofunni. Í launakönnun Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja voru heildarlaun nokkru lægri eða um 473 þúsund krónur á mánuði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert