Læknaráð mótmælir niðurskurði

Sjúkrahúsið á Akureyri
Sjúkrahúsið á Akureyri Skapti Hallgrímsson

Niðurskurður á Sjúkrahúsinu á Akureyri felur í sér verulega þjónustuskerðingu við sjúklinga á Norður-og Austurlandi. Þetta kemur fram í ályktun læknaráðs sjúkrahússins vegna boðaðs niðurskurðar til heilbrigðismála á fjárlögum. Þar er lagður til 170 milljóna króna sparnaður á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Mótmælir læknaráðið þessum niðurskurði á heilbrigðisþjónustu.

Segir í ályktuninni að ekki sé lengur hægt að tala um hagræðingu í þessu samhengi.
Þjónustuskerðing sé óhjákvæmileg og heilbrigðisyfirvöld þurfi því að marka skýra stefnu  um hvaða þjónustu á að halda áfram að bjóða upp á.

Sparnaðaráætlunin fyrir sjúkrahúsið feli meðal annars í sér skerðingu á skurðstofustarfsemi, og fækkun leguplássa á tilheyrandi deildum. Þetta þýði lengri biðlista eftir aðgerðum með tilheyrandi þjónustuskerðingu.

Þá segir að mikil skerðing verði á starfsemi barnadeildar, þeirrar einu utan LSH. Þessi skerðing hafi einnig áhrif á starfsemi fæðingardeildar og þjónustu við þungaðar og fæðandi konur sem þarf þá að senda á LSH.

Dregið verður úr starfsemi endurhæfingar-og öldrunarlækningadeildar og vafasamt hvort það felur í sér sparnað þegar til lengri tíma er litið samkvæmt ályktuninni. Er það sagt mikilvægt að velferðarráðherra skilgreini hvaða heilbrigðisþjónustu skuli veita áfram og hvert hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri verður í framtíðinni. Ef þessi niðurskurður verði að veruleika sé hætta á að mikil sérhæfing og sérþekking glatist og setji nýja framtíðarsýn Sjúkrahússins á Akureyri í uppnám.

Lýsir ráðið yfir þungum áhyggjum af þessu og skorar á velferðarráðherra og Alþingi að endurskoða kröfu sína um niðurskurð í heilbrigðismálum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert