80% hlynnt afnámi verðtryggingar

Tæp 80% segjast styðja almenna niðurfærslu íbúðalána skv. könnun Capacent.
Tæp 80% segjast styðja almenna niðurfærslu íbúðalána skv. könnun Capacent. mbl.is/Rax

Rúm 80% landsmanna eru hlynnt afnámi verðtryggingar samkvæmt nýrri könnun sem Capacent hefur gert fyrir Hagsmunasamtök heimilanna. Í fréttatilkynningu frá samtökunum segir að stuðningur við hugmyndir um afnám verðtryggingar hafi mælst sá sami haustið 2009 en þá létu samtökin síðast rannsaka afstöðu almennings til krafna samtakanna.

„Haustið 2009 sögðust um 75% hlynnt hugmyndum um almenna niðurfærslu lána.  Nú mælist stuðningur við almenna niðurfærslu íbúðalána hins vegar tæp 80%. Sérstaka athygli vekur að hlutfall þeirra sem segjast mjög hlynnt almennri niðurfærslu eykst um rúm 12%.

Þá er áhugavert að sjá að stuðningur við kröfur samtakanna er algerlega þverpólitískur, mikill meirihluti kjósenda allra flokka eru hlynntir kröfunum. Ljóst er að samtökin endurspegla vilja þjóðarinnar í þessum efnum,“ segir í fréttatilkynningu hagsmunasamtakanna.

Þá kemur fram að stuðningur við þjóðaratkvæðagreiðslu um kröfurnar er um 50%, en þar eru fleiri í hópi óákveðinna sem svara hvorki né.

Þá segjast samtökin eiga mikinn pólitískan stuðning almennings skv. niðurstöðum könnunarinnar þar sem rúm 31% þeirra sem taka afstöðu segja líkur á því að þau myndu kjósa samtökin ef þau tækju þá ákvörðun að bjóða fram til Alþingis. „Þá er stórt hlutfall, rúm 22 % að auki sem mundu hugsanlega kjósa samtökin,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Í úrtakinu í könnuninni voru 1.350 manns á öllu landinu, 18 á ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Capacent Gallup. Um var að ræða netkönnun sem gerð var dagana 27. október til 4. nóvember. Svarhlutfallið var 61,6%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert