Sex á biðlista líknardeilda

Líknardeildin í Kópavogi
Líknardeildin í Kópavogi Sigurgeir Sigurðsson

Sex voru á biðlista líknardeilda Landspítalans 19. október sl. og eru oftast  2–4 einstaklingar á biðlista líknardeildarinnar á Landakoti hverju sinni og nú eru að meðaltali 4–6 einstaklingar á biðlista í Kópavogi. Þetta kemur fram í svari velferðarráðherra.

Álfheiður Ingadóttir, þingmaður Vinstri grænna, spurði Guðbjart Hannesson velferðarráðherra út í líknardeildir. Í svari Guðbjartar er rakið að á Íslandi séu tvær líknadeildir starfandi. Báðar eru á lyflækningasviði Landspítalans og er önnur á Landakoti en hin í Kópavogi.

Líknardeildin í Kópavogi var opnuð árið 1999 og er byggð upp af sjö daga legudeild, fimm daga legudeild, dagdeild og göngudeild. Heimahlynning Landspítalans er staðsett á neðri hæð líknardeildarinnar og sinnir einstaklingum á öllum aldri sem dvelja heima. Líknardeild aldraðra á Landakoti var opnuð árið 2001 og þar eru níu sjúkrarúm.

Þá segir að til standi að sameina líknardeildirnar tvær á einn stað snemma á næsta ári, þ.e. í Kópavogi. Með því fækkar rúmum um fjögur en til að mæta þessari fækkun er ætlun sjúkrahússins að efla sérhæfða heimaþjónustu og líknarþjónustu á almennum deildum. Jafnframt er bent á að þó upphaf formlegrar líknarmeðferðar megi rekja til 7. áratugar síðustu aldar sé líknarmeðferð veitt víðar en á líknardeildum og deyjandi fólk hafi fengið líknandi meðferð víða, svo sem á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum.

Árið 2010 lögðust 148 einstaklingar inn á sjö daga legudeildina í Kópavogi en þar sem einhverjir þeirra hafa komið oftar en einu sinni var fjöldi innlagna/dvala aðeins meiri eða 174. Sextíu og tveir komu á dagdeildina en innlagnir voru 89 (sjá töflu að aftan). Undanfarin tvö sumur hafa líknardeildirnar verið sameinaðar í þrjá mánuði yfir sumartímann og líknardeild þá einungis rekin í Kópavogi. Þessa níu mánuði sem líknardeild aldraðra var rekin á Landakoti árið 2010 komu þangað 74 einstaklingar en innlagnir voru 82.

Sjúklingar eru teknir inn af biðlista eftir því hver er í mestri þörf hverju sinni. Yfirleitt er biðin frá nokkrum dögum upp í tvær til þrjár vikur. Hinn 19. október sl. voru tveir á biðlista líknardeildar aldraðra á Landakoti og fjórir á biðlista líknardeildarinnar í Kópavogi. Oftast eru 2–4 einstaklingar á biðlista líknardeildarinnar á Landakoti hverju sinni en frá því að fimm daga deildin var opnuð í Kópavogi árið 2007 hefur biðlisti þar styst og nú eru að meðaltali 4–6 einstaklingar á biðlista þar hverju sinni.

Um síðustu mánaðamót varð Landspítalinn að loka fimm daga líknardeildinni í Kópavogi tímabundið vegna læknaskorts. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert