„Það er komið logn"

Jón Gnarr, borgarstjóri, hefur fengið 220 beiðnir um viðtöl frá …
Jón Gnarr, borgarstjóri, hefur fengið 220 beiðnir um viðtöl frá erlendum fjölmiðlum. mbl.is/Sigurgeir

„Við erum komin í gegnum einhverjar mestu efnahagsþrengingar sem þessi borg  hefur gengið í gegnum í 225 ára sögu sinni. Óveðrið er gengið yfir. Það er komið  logn," sagði Jón Gnarr borgarstjóri m.a. í ræðu sinni á fundi borgarstjórnar í dag, þegar frumvarp að fjárhagsáætlun fyrir árið 2012 var kynnt.

„Nú er liðið tæpt ár frá því að meirihluti Besta flokks og Samfylkingar lagði fram sína fyrstu fjárhagsáætlun. Það var erfið fjárhagsáætlun. Skuldir voru miklar og staðan var erfið vegna efnahagshrunsins og alvarlegrar stöðu Orkuveitu Reykjavíkur. Staðan er sem betur fer önnur í dag. Sú fjárhagsáætlun sem við kynnum hér er hreint ekkert hræðileg," sagði Jón Gnarr á fundi borgarstjórnar.

„Vissulega er uppbyggingarvinna framundan og vissulega eru margir sem liggja eftir sárir en við reynum að hlúa að þeim eins vel og við getum og halda áfram. Ég er fullviss um að við verðum búin að ná fullum efnahagslegum bata að  þremur árum liðnum. Við okkur blasa bara tækifæri. Ég held að tækifærin okkar séu aðallega fólgin í menningu okkar og ferðamennsku," sagði borgarstjóri ennfremur.

Jón sagði að frá því að hann tók við embætti borgarstjóra hefðu borist um 200 viðtalsbeiðnir frá erlendum fjölmiðlum.  „Ég hef reynt að nýta þessa athygli eins vel og ég get fyrir borgina og hef reynt að draga upp jákvæða, skemmtilega og spennandi mynd af Reykjavík, Íslandi og fólkinu sem býr hér. Framtíð  Reykjavíkur og auður okkar liggur í menningunni okkar, fólkinu okkar, sögunni  okkar og tungumálinu.  Hvernig við tölum um okkur sjálf og við hvert annað, skiptir máli. Það skiptir gríðarlega miklu máli." 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert