Ekkert fararsnið á ríkisstjórninni

Björn Valur Gíslason.
Björn Valur Gíslason.

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði á Alþingi í dag að ekkert fararsnið væri á ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Bað hann þingmenn Sjálfstæðisflokksins að flytja þennan boðskap inn á landsfund flokksins, sem hefst á morgun.

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að þetta væru verstu skilaboð sem íslenska þjóðin hefði fengið í langan tíma.

Björn Valur sagði, að undanfarið hefðu dunið á þjóðinni útvarpsauglýsingar frá hagsmunaðilum, sem flestir kæmu úr harðasta baklandi Sjálfstæðisflokksins og sem kvörtuðu sáran yfir því að fá ekki aðkomu að lagasetningu um sjávarútveg.

Sagði Björn Valur m.a. að þetta hlyti að þýða, að til þessa hefðu þessir aðilar átt greiðan aðgang að löggjafarvaldinu og sett fingraför á lagasetningu í mörg ár. Þá opinberuðust í þessum auglýsingum tengsl sem hefðu verið milli stjórnmálaflokka, í þessu tilfelli Sjálfstæðisflokksins, og atvinnulífsins og þar hefði lífið breyst.

„Stjórnmálaumræðan nú sýnir það og sannar að Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert breyst þrátt fyrir það sem á undan er gengið, innrætið er  það sama. Flokksmenn virðast taka út kvalir fyrir það að vera ekki lengur  í stjórnarráðinu og baklandið kvelst sömuleiðis. En það eru skilaboð til þingmanna Sjálfstæðisflokksins úr þessum sal. Það er ekkert fararsnið á ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna. Hér ætlum við að sitja og takast á við þau verk sem þjóðin fól okkur á sínum tíma," sagði Björn Valur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert