Björn og Friðrik hjuggu á hnútinn

Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Miklar umræður urðu í gær um aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið á fundi nefndar, sem fjallaði um utanríkismálaályktun á landsfundi Sjálfstæðisflokks. Margar tillögur komu fram á fundinum um það hvernig fjalla ætti um aðildarviðræður Íslendinga en á endanum var samþykkt tillaga frá ráðherrunum fyrrverandi Birni Bjarnasyni og Friðrik Sophussyni.

Þeir Björn og Friðrik lögðu til, að í ályktuninni yrði eftirfarandi málsgrein: „Landsfundur ályktar að gera skuli hlé á aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu."

Teitur Björn Einarsson, formaður nefndarinnar, sagði á landsfundinum í dag, að ýmis sjónarmið hefðu komið fram á fundinum, allt frá því að vilja ganga í Evrópusambandið til þess að vera alfarið á móti aðild og aðildarviðræðum.

Fram kom í máli ýmissa á landsfundinum í dag, að tillaga Björn og Friðriks sameinaði sjónarmið ólíkra hópa. Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður flokksins, sagði að tillaga Björns og Friðriks væri mjög skýr hvað varðar stefnu Sjálfstæðisflokksins og mjög skynsamleg.

Elliði Vignisson, bæjarstjóri, lagði hins vegar fram breytingartillögu. Í henni er lagt til, að aðildarviðræðum við Evrópusambandið verði hætt og ekki verið sótt um að nýju  fyrr en þjóðin samþykkir það í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður flokksins, sagðist samþykkja tillögu Björns og Friðriks, með semingi þó þar sem hún vildi að aðildarviðræðunum verði lokið. Ólöf Nordal, varaformaður flokksins, lýsti einnig stuðningi við tillöguna.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert