Ísland nýtur aukinna vinsælda

Geysir er vinsæll meðal ferðamanna hér á landi.
Geysir er vinsæll meðal ferðamanna hér á landi. LUCAS JACKSON

Bandarískir ferðamenn eru æ spenntari fyrir að ferðast til Íslands þökk sé umfjöllunum og meðmælum í tímaritum, sjónvarpsþáttum og bókum. Fyrri hluta ársins 2011 voru þeir rúmum 50% fleiri en árið áður.

Á marketwire.com segir að þökk sé gosinu í eldfjallinu sem nær ómögulegt er að bera fram nafnið á, hafi hrifning ferðamanna aukist enn frekar og komum þeirra hingað til lands fjölgað verulega. Ísland sé komið ofarlega á lista fólks yfir lönd sem það langi að heimsækja. Eflaust verði landið einn vinsælasti áfangastaðurinn árið 2012.

Í haust völdu yfir þrjú þúsund lesendur Lonely Planet, umsvifamesta útgefanda ferðabóka í heiminum, Ísland vinsælasta áfangastaðinn fyrir árið 2012 og Reykjavík vinsælustu borgina. Árið 2012 var sagt verða ár ferðamennskunnar á Íslandi. Þá sæmdi National Geographic Traveler landið svipuðum titli.

Þá segir frá því á síðunni að fjallað hafi verið um Ísland í þættinum Born to Explore á ABC sjónvarpsstöðinni í Bandaríkjunum. Richard Wiese, stjórnandi þáttarins, ferðaðist til Íslands, fór í útreiðartúr og bakaði brauð með því að nota aðeins jarðhita. Annar Born to Explore-þáttur, sem fjallar um Ísland, verður sýndur í febrúar nk. og mun bera heitið „Í leit að víkingum“.

Á tímabilinu janúar til ágúst 2011 fjölgaði ferðalöngum frá Bandaríkjunum til Íslands um rúm 50% frá árinu áður. Þá fjölgaði þeim um yfir 40% í september og október samanborið við sömu mánuði 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert