Fann gleraugun á reginfjöllum

Lagt upp í slóð Reynistaðarbræðra frá Tungufelli í Hrunamannahreppi á …
Lagt upp í slóð Reynistaðarbræðra frá Tungufelli í Hrunamannahreppi á dögunum. Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson

„Ég gekk fram á gleraugun og þau voru stráheil,“ segir Jón Hermannsson, bóndi á Högnastöðum við Flúðir. Hann fór fyrr í mánuðinum með nokkrum félögum sínum ríðandi á hrossum frá Tungufelli, sem er efsti bær í Hrunamannahreppi, hvar leiðin lá inn til fjalla og að Beinhóli á Kili. Með þessu vildu þeir félagarnir öðrum þræði minnast hinnar frægu ferðar Reynistaðarbræðra úr Skagafirði – og þriggja annarra ferðafélaga þeirra – sem síðla hausts árið 1780 hugðust eftir fjárkaup syðra fara norður yfir Kjöl til síns heima.

Leiðangur Reynistaðarbræðra var hins vegar feigðarför. Bræðurnir tveir og fylgdarmenn þeirra urðu úti og hafa örlög þeirra æ síðan verið mönnum ráðgáta sem miklar sögur hafa spunnist í kringum. Og gleraugu Jóns Hermannssonar sem týndust í ferðinni á dögunum urðu með líku lagi að ráðgátu, sem nú hefur tekist að leysa.

Nál í heystakknum

„Við vorum á leiðinni suður eftir að hafa riðið inn að Beinhóli og áðum þá við Sandá, sem er skammt ofan við Gullfoss,“ segir Jón Hermannsson. „Ég var með gleraugun í skyrtuvasanum og fyrir einhvern klaufaskap missti ég þau í jörðina. Að vísu varð annað glerið eftir í vasanum sem þó bætti ekki skaðann að neinu leyti. Mér fannst því nauðsynlegt að gera að minnsta kosti tilraun til að finna gleraugun sem ég get ekki verið án.“

Sl. laugardag fór Jón við annan mann, mektarbónda í uppsveitum Árnessýslu, inn að Sandá sem er nánast uppi á reginfjöllum í von um að finna gleraugun góðu. Þeir vissu nokk hvar bera skyldi niður og viti menn; gleraugun fundu þeir nánast áður en leit hófst. Með öðrum orðum sagt, nálin í heystakknum fannst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert