Öryrkjar senda þingmönnum bréf

Þingmenn hafa áður verið minntir á að taka tillit til …
Þingmenn hafa áður verið minntir á að taka tillit til öryrkja. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Öryrkjabandalagið hefur sent öllum alþingismönnum bréf þar sem þess er krafist að ríkisstjórnin hverfi þegar í stað frá áformum sínum um frekari skerðingar á lífskjör öryrkja fjórða árið í röð.

Öryrkjabandalagið segir í bréfinu að áratuga löng réttindabarátta öryrkja hafi verið færð aftur um fjölda ára.

„Í frumvarpi til fjárlaga árið 2012 er gert ráð fyrir að hækkun bóta almannatrygginga verði í samræmi við almenna hækkun kjarasamninga eða 3,5%. Sú krónutöluhækkun lægstu launa, sem kjarasamningar gera ráð fyrir, að fjárhæð 11.000 kr. er því ekki tryggð. Áætluð hækkun er einnig mun lægri en ákvæði 69. gr. almannatryggingalaga segir til um hvernig lífeyrisgreiðslur skulu breytast árlega.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar tengdri kjarasamningum frá 5. maí 2011 segir að stjórnvöld muni endurskoða bætur almannatrygginga með hliðsjón af niðurstöðum kjarasamninga milli ASÍ og SA. Hliðstæð hækkun til örorkulífeyrisþega og launþega á lægstu töxtum frá og með 1. febrúar nk. ætti að vera um 6,5%.

Minnt er á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar en þar segir orðrétt:
„Mikilvægasta verkefni velferðarþjónustunnar og leiðarljós við forgangsröðun í núverandi aðstæðum er að vernda hag og stöðu barna og fjölskyldna þeirra, sem og þeirra sem lakast standa í samfélaginu.“

Þrátt fyrir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar munu eftirtaldir bótaflokkar ekki hækka ef fjárlögin verða samþykkt í óbreyttri mynd sem tilheyra lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð: mæðra- og feðralaun, umönnunargreiðslur, meðlagsgreiðslur, barnalífeyrir, barnalífeyrir vegna náms, dagpeningar slysabóta, dánarbætur vegna slysa og uppbætur vegna reksturs bifreiða,“ segir í bréfinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert