Írar horfi til Íslendinga

Blysförin við Bessastaði skömmu áður en forsetinn synjaði Icesave-samningnum staðfestingar.
Blysförin við Bessastaði skömmu áður en forsetinn synjaði Icesave-samningnum staðfestingar. Rax / Ragnar Axelsson

Íslendingar tóku hagsmuni almennings fram yfir hagsmuni „spilavítiskapítalista“, þvert á það sem Írar hafa gert. Þá naut Ísland góðs af því að hafa eigin gjaldmiðil eftir að bankakerfið hrundi haustið 2008. Þetta er skoðun metsöluhöfundarins Frederick Forsyth.

Forsyth, sem er meðal annars höfundur bókarinnar Dagar sjakalsans, eða The Day of The Jackal, ber saman stöðuna á Íslandi og á Írlandi í grein á vef Irish Independent.

Metsöluhöfundurinn tekur sterkt til orða og skrifar að fyrir tilstilli erlendra áhrifaafla herðist snaran utan um írskan almenning. Eina leiðin til að komast undan ánauð sé að kasta evrunni og taka upp írska þjóðmynt á ný.

Forsyth kallar gömlu stórbankanna þrjá, Glitni, Kaupþing og Landsbankann, „spilavítisbanka“ og hefur ekki mikla samúð með erlendum bankastofnunum sem að hans mati tóku mikla áhættu með því að beina lánsfé til íslensku útrásarbankanna.

Rithöfundurinn er hrifinn af Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, og lýsir honum sem hugprúðum fyrir að gera íslensku þjóðinni tvívegis kleift að kjósa í Icesave-deilunni.

Áhugasamir geta lesið grein Forsyth hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert