Viðunandi heildarniðurstaða

Steingrímur í lokaræðu þriðju umræðu um fjárlögin 2012.
Steingrímur í lokaræðu þriðju umræðu um fjárlögin 2012. Mynd/Alþingi

Þriðju og síðustu umræðu um fjárlög 2012 lauk á tólfta tímanum með ræðu Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Hann sagði heildarútkomuna viðunandi og hallinn ekki látinn aukast óviðunandi. Atkvæðagreiðsla um fjárlögin fer fram á morgun.

Í lokaræðu sinni sagði Steingrímur lokaniðurstöðuna nálægt þeim markmiðum sem lagt var upp með, að ná hallanum í viðunandi niðurstöðu árið 2012. Hann sagði að með fjárlögum 2012 væru Íslendingar nálægt því að vera á þeim slóðum, þó svo að gert væri ráð fyrir mildari skrefum árin 2013 og 2014.

Þá sagði Steingrímur kannski ekki mikið um það rætt, hversu mikilvæg fjárlögin væru í hinu stóra samhengi hlutanna. Á þennan þátt efnahagsmálanna sé horft og ræður meðal annars hvernig lánshæfismat þróast og vaxtakjör Seðlabanka Íslands. Þetta sé mælikvarði á stöðugleika sem skoðaður sé alþjóðlega og hafi afleidd áhrif á fjölmarga aðra.

Hann sagði ljóst að bankar og stórfyrirtæki ættu mikilla hagsmuna að gæta, að geta vísað til þess að þróun í ríkisfjármálum væri á réttri leið og kennitölurnar viðunandi. Það muni greiða götu þeirra á alþjóðlegum fjármálamarkaði.

Taka verði inn í myndina að fjárlögin séu hluti af stærri heild þar sem margar breytur takist á. Steingrímur sagðist telja fjárlögin trúverðug og að ríkisstjórnin gæti farið nokkuð sátt með þau í kynningu og viðræður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert