Sáttur við heildarniðurstöðuna

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra kveðst vera ánægður með efnislega niðurstöðu fjárlaga ársins 2012 sem voru samþykkt á Alþingi í kvöld. Hann er einnig ánægður með aukinn hagvöxt á þessu ári.

Steingrímur er einnig ánægður með tímanlegu afgreiðslu fjárlaga, á réttum tíma miðað við starfsáætlun, og er fjárlaganefnd mjög þakklátur fyrir vel unnin og vönduð störf.

Hann sagði að óverulegt frávik hafi frá upphaflegu fjárlagafrumvarpi 2012 og hallatalan sú minnsta sem sést hafi á fjárlögum í 4-5 ár. „Þetta er liðlega 20 milljarða halli á heildarjöfnuði, sem er um 1,16% af landsframleiðslu. Þá erum við komin langan veg frá 14-15% árið 2008 og 10% árið 2009,“ sagði Steingrímur.

Hann sagði þetta staðfesta gríðarlegan árangur sem náðst hafi í að minnka halla á fjárlögum. „Við erum að fá jákvæðan frumjöfnuð upp á liðlega 2% af landsframleiðslu, 36 milljarða, sem við getum sagt að sé framlegðin úr undirliggjandi rekstri ríkisins. Þetta er það sem höfum þá upp í fjármagnsliðina.

Þessi sami frumjöfnuður var neikvæður um 100 milljarða árið 2009. Það þýðir að batinn á frumjöfnuði ríkissjóðs á þessum fjórum árum, gangi þetta í grófum dráttum eftir 2012, er hátt í 140 milljarðar. Það er svipuð stærð og allur kostnaður heilbrigðis- og menntakerfisins,“ sagði Steingrímur.

Hann sagðist spá því að þetta verði ein besta niðurstaða sem OECD ríki sýni í fjárlögum fyrir árið 2012. Menn hefðu líklega ekki spáð því fyrir nokkrum árum að Ísland yrði nú komið í hóp hinna bestu hvað þetta varðar.

Þá sagði Steingrímur sérlega ánægjulegt að fá einnig í dag mælingu Hagstofu Íslands sem mæli kraftmikinn bata í hagkerfinu, 4,7% hagvöxt á þriðja ársfjórðungi. Hafa verði vissan fyrirvara á slíkri nánast samtímamælingu, en Steingrímur benti á að meðaltal fyrstu níu mánaða ársins sé hagvöxtur upp á 3,7%. Yfir því hljóti menn að gleðjast.

„Þegar við afgreiddum fjárlögin í fyrra voru miklar hrakspár um að þau myndu kæfa hagvöxtinn, við fengjum aðra dýfu og allt það. Þetta hefur sem betur fer afsannast og myndarlegur bati er genginn í garð. Hann er vissulega að hluta til drifinn áfram af vexti einkaneyslu,“ sagði Steingrímur. Hann sagði að sem betur fari sé hún að koma til baka eftir mikla dýfu.

Ekki sé síður ánægjulegt að hagvöxturinn sé líka drifinn af kraftmikilli útflutningsstarfsemi og fjárfestingu atvinnuvega. Atvinnuvegafjárfesting einkaaðila hafi vaxið um 13% fyrstu níu mánuði ársins og íbúðahúsafjárfesting um ein 10%.

-En þýða þessi jákvæðu teikn að ekki hefði þurft að ganga jafn langt og gengið var í niðurskurði ríkisútgjalda?

„Nei, ég tel ekki. Ég held að það eigi eftir að sýna sig að það er okkur óendanlega dýrmætt að hafa náð þessum mikla árangri tiltölulega hratt í ríkisfjármálunum. Við megum ekki gleyma því að við erum að borga 15% af öllum tekjum ríkisins í vaxtakostnað. Ég þekki engan sem væri ánægður með að hækka þá tölu,“ sagði Steingrímur.

Hann sagði ráðið að ná okkur sem fyrst út úr hallarekstri ríkissjóðs og í jöfnuð. Annað sem enginn skyldi vanmeta er að þessi árangur verði skoðaður af matsfyrirtækjum, erlendum fjármálamörkuðum og fjárfestum.

„Það er mjög verðmætt fyrir Ísland að sýna að við séum á áætlun, að við séum að ná þeim árangri sem við stefndum að. Ég geri mér góðar vonir um að þetta sé hjálplegt í því að lánshæfismat landsins haldi áfram að styrkjast,“ sagði Steingrímur.

Hann minnti á að á dögunum hafi eitt matsfyrirtækið breytt horfum Íslands úr neikvæðum í stöðugarog sagði að við þurfum að sjá meira af slíku. Þá nefndi Steingrímur að Seðlabankinn hélt stýrivöxtum óbreyttum og bankinn hljóti að vera ánægður með þessa afgreiðslu fjárlaga.

„Þau [fjárlögin] gefa engin tilefni til að fara að hækka hér vexti á grundvelli þess að það sé einhver slaki í ríkisbúskapnum. Þvert á móti undirbyggir þetta tiltölulega trausta stöðu í þessum efnum,“ sagði Steingrímur.

Hann sagði að batinn á þessu ári, sem orðið hefur samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka og Hagstofu, muni treysta grunn fjárlaga á næsta ári. Þá verði betri forsendur til að treysta á að árangur sé að nást. Því verði tekjuöflunarforsendur traustari en ella og stærra hagkerfi sem leggi inn á árið 2012. 

Steingrímur sagði vitað að erfiðir hlutir séu lagðir á stofnanir og opinberan rekstur, ekki síst í velferðarmálunum. Þó hafi heldur verið slakað þar á og settur milljarður inn í heilbrigðiskerfið við vinnslu fjárlaga. Myndast hafi samstaða um að heilbrigðiskerfið ætti að njóta þess sem menn töldu sig geta gert.

„Auðvitað hefðum við gjarnan viljað geta sett meiri peninga í millifærslur og trygginga- og bótakerfin. En við erum að gera okkar besta. Þegar heildarniðurstaðan er metin þá er ég sáttur við hana,“ sagði Steingrímur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert