Sendiráðsmenn brutu ekki lög

Sendiráð Bandaríkjanna.
Sendiráð Bandaríkjanna.

Ekkert bendi  til þess að starfsmenn öryggissveitar sendiráðs Bandaríkjanna í Reykjavík hafi brotið íslensk lög né að starfsemi sveitarinnar brjóti í bága við þær heimildir sem sendiráðið hefur á grundvelli Vínarsamningsins um stjórnmálasamband ríkja.

Hefur ríkissaksóknari kynnt innanríkisráðuneytinu þessa niðurstöðu.

Haustið 2010 fór þáverandi dómsmála- og mannréttindaráðherra fram á að ríkislögreglustjóri kannaði starfsemi öryggissveitar sem starfrækt er við sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Var þetta gert í kjölfar frétta frá Noregi og Danmörku um að slíkar sveitir hefðu mögulega gerst brotlegar við þarlend lög.

Ríkislögreglustjóri óskaði svara frá bandaríska sendiráðinu á Íslandi en í skýrslu embættisins kemur fram að sendiráðið hafi ekki svarað með fullnægjandi hætti. Gat ríkislögreglustjóri því ekki skilað niðurstöðu hvað varðar hugsanleg brot gegn íslenskum lögum. Dómsmála- og mannréttindaráðherra ákvað því að senda embætti ríkissaksóknara málið og var það gert með bréfi dagsettu 14. desember 2010.

Niðurstaða ríkissaksóknara er sú að ekki séu tök til þess að taka málið til áframhaldandi skoðunar og sé því meðferð málsins hætt. En fyrirliggjandi upplýsingar bendi hvorki til þess að starfsmenn öryggissveitar bandaríska sendiráðsins hafi brotið gegn íslenskum lögum né fari starfsemi sveitarinnar í bága við þær heimildir sem sendiráðið hafi á grundvelli Vínarsamningsins um stjórnmálasamband.

Ekki hafi komið fram neinar upplýsingar sem bendi til þess að starfsmenn sveitarinnar hafi í einstökum tilvikum við eftirlitsstörf brotið gegn íslenskum lögum. Gögn sem lágu fyrir þegar málið barst ríkissaksóknara sýndu ekki fram á að fyrir lægi vitneskja um að refsivert brot hefði verið framið né heldur að grunur hafi verið um slíkt. Sú staða hafi ekki breyst við athugun ríkissaksóknara.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert