Krónan óvinur launafólks

Sigurður Bessason, formaður Eflingar.
Sigurður Bessason, formaður Eflingar. mbl.is/Árni Sæberg

„Íslenska krónan hefur sannarlega sýnt það í þessu hruni að hún er vinur framleiðanda sem flytja vörur sínar til útlanda en um leið svæsnasti óvinur launafólks þar sem veikindi hennar nærast á lækkuðum kaupmætti fólksins.“ Þetta segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar, í leiðara Eflingarblaðsins.

Sigurður segir að þegar forystumenn launafólks og atvinnurekenda taki til skoðunar framhald kjarasamninga í næsta mánuði verði þeim mikill vandi á höndum. „Forsendur kjarasamninganna og flestar aðstæður á vinnumarkaði eru mjög andstæðar launafólki. Vonir sem bundnar voru við kjarasamningana í sumarbyrjun 2011 eru því miður ekki að skila launafólki þeim markmiðum sem stefnt var að - að minnsta kosti ekki fram að þessu.

Alvarlegast er að ekki hefur tekist að skapa á ný atvinnu í landinu. Þúsundir manna hafa flúið land til að leita betri lífskjara fyrir fjölskyldur sínar en þrátt fyrir það eru 12.000-13.000 manns sem enga atvinnu fá. Í Eflingu-stéttarfélagi eru um 2.400 manns án vinnu. Þessar tölur eru algerlega óásættanlegar. Stjórnvöld hafa í orði kveðnu stutt atvinnulífið í þeirri viðleitni að koma hjólum þess af stað en mikið hefur skort upp á framkvæmdina. Þegar kemur að efndum fyrirheita um atvinnuuppbyggingu er eins og hendur stjórnvalda séu bundnar.“

Leiðari Eflingarblaðsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert