Stærstu skattstofnarnir óbreyttir

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, ítrekaði á Alþingi í dag að hinir stóru og  breiðu skattstofnar ríkisins yrðu óbreyttir á næsta ári eða lækkuðu.

Bjarni Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði hins vegar tímabært að Steingrímur tæki til baka yfirlýsingar um að ekki væri verið að hækka skatta á allan almenning.

Sagði Bjarni að ljóst væri af því hvernig tekjuáætlun fjárlaga næsta árs kæmi út úr þingnefnd að verið væri að hækka álögur á almenning og nefndi m.a. hækkun á kolefnisgjaldi og áfengis- og tóbaksgjöldum, nýja skatta á sparnað og lífeyrisréttindi. Þetta lenti allt á almennum launþegum í landinu.

Einnig væri verið að svíkja ýmis loforð, m.a. um að auðlegðarskattur verði afnuminn. Nú eigi að hækka hann og framlengja til 2013.  

Steingrímur sagði, að afgreiðsla efnahags- og viðskiptanefndar á frumvarpi um ráðstafanir í ríkisfjármálum staðfesti eingöngu, að tekjuforsendur fjárlaga verði uppfylltar. „Það stendur sem áður var sagt að stóru tekjustofnarnir eru óhreyfðir. Það er ekki verið að hækka tekjuskatt, þvert á móti frekar að lækka hann, það verður ekki hróflað við virðisaukaskatti, tryggingagjald verður lækkað þannig að stóru breiðu skattstofnarnir, sem snúa að almenningi, eru lækkaðir eða standa óbreyttir," sagði Steingrímur.

Hann sagði að lengi hefði legið yfir að kolefnisgjald myndi hækka og áfengi og tóbak og aðrar breytur í fjárlagafrumvarpinu væru að taka verðlagshækkunum. Varðandi lífeyrissjóðina snerist skattur á þá um þátttöku þeirra í viðamiklum skuldaaðgerðum vegna heimilanna og fjármögnun á vaxtabótum á árunum 2011 og 2012. Um þetta hefði samist í desember á síðasta ári „og það stæði ekki til að láta það springa í loft upp,“ sagði Steingrímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert