Viljayfirlýsing um sölu Perlunnar

Orkuveita Reykjavíkur hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um sölu á Perlunni við þá  sem áttu hæsta tilboð í eignina. Með henni fá bjóðendur frest til 31. mars næstkomandi til að aflétta fyrirvörum í tilboði sínu, sem hljóðar upp á 1.688,8 milljónir króna.

Fyrirvararnir miðast við að treysta forsendur hagkvæmniathugunar, sem liggur til grundvallar tilboðinu. Hæstbjóðendur eru innlendir fjárfestar sem starfað hafa á sviði ferðaþjónustu og húsbygginga. Garðar Vilhjálmsson lögmaður er í forsvari fyrir þeim, segir á vef Orkuveitu Reykjavíkur.

Sex tilboð bárust í Perluna, en eignin var auglýst til sölu nú á haustdögum. Öll voru tilboðin háð einhverjum fyrirvörum en hið hæsta nemur 1.688,8 milljónum króna. Ekki verður ráðist í viðræður við aðra bjóðendur meðan viljayfirlýsingin við hæstbjóðendur er í gildi.

Perlan er byggð ofan á sex hitaveitutanka á Öskuhlíð sem ekki eru seldir og munu áfram þjóna hitaveitunni í Reykjavík.

Perlan er ein þeirra eigna sem stjórn OR samþykkti að selja í janúar síðastliðnum. Þá voru einnig settar reglur um söluferli eigna og ákveðið að gefa eigendum fyrirtækisins kost á að kaupa tilteknar eignir áður en þær færu í almenna sölu.

Borgarráð Reykjavíkur ákvað samhljóða á fundi 23. júní sl. að gera ekki athugasemdir við að Perlan færi í almenna sölu.

Sala Perlunnar er hluti aðgerðaáætlunar Orkuveitu Reykjavíkur og eigenda fyrirtækisins sem samþykkt var í vor. Samkvæmt henni mun fyrirtækið afla fjár með sölu á eignum utan kjarnastarfsemi að fjárhæð 10 milljarða króna á árabilinu 2011 til og með 2016. Eignasalan, eins og aðrar aðgerðir, er á áætlun, segir á vef OR.

Þá var hluti höfuðstöðva Orkuveitunnar að Bæjarhálsi 1 auglýstur til sölu eða leigu nú um helgina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert