Hani á bæjarstjórnarfundi

Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi, til hægri, með Hrólf í fanginu og …
Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi, til hægri, með Hrólf í fanginu og Guðmundur B. Guðmundsson fylgist með. mbl.is/Vikudagur.is

Bæjarstjórn Akureyrar fundaði í dag og meðal þess sem bar til tíðinda var að haninn Hrólfur var viðstaddur seinni umræðu um búfjárhald í bænum. Kom Hrólfur í pontu með bæjarfulltrúanum Sigurði Guðmundssyni, en til stendur að banna hanahald á Akureyri. Tillagan var þó ekki samþykkt og málinu vísað til framkvæmdaráðs, Hrólfi til mikillar gleði að því er fram kemur á vef Vikudags.

Sigurður, fulltrúi Bæjarlistans, tók Hrólf með sér í pontu er hann tók til máls og hafði haninn hægt um sig á meðan, að sögn Vikudags. Fram komu nokkrar breytingartillögur við samþykkt um búfjárhald og var tillaga Odds Helga Halldórssonar, formanns bæjarráðs, samþykkt með 11 samhljóða atkvæðum um að vísa málinu aftur til umfjöllunar í framkvæmdaráði.

„Hrólfur mun því geta haldið jólin nokkuð afslappaður með sínum hænum og sonum sínum tveim, þeim Oddi Helga og Böðvari og kanínunni Dísu, sem býr í góðu yfirlæti í hænsnakofanum við Norðurgötu," segir í frétt Vikudags.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert