„Fólk kann að meta okkar framlag“

Flugeldar taka á sig ýmsar myndir. Á þessari mynd, sem …
Flugeldar taka á sig ýmsar myndir. Á þessari mynd, sem tekin var á flugeldasýningu Björgunarsveitarinnar Suðurnesja birtist þessi fugl skyndilega. mynd/Sigurbjörn Ragnarsson

Flugeldasala hófst í gær og að venju fer hún fremur rólega af stað. „Þetta byrjar alltaf mjög rólega. Það er tvo síðustu dagana sem er eitthvert fútt í þessu,“ segir Kristinn Ólafsson, framkvæmdastjóri Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Hann hvetur fólk hins vegar til að vera tímanlega á ferð.

Hann segir að það geti orðið dálítil þrengsli á sjálfan gamlársdag þegar flestir mæta til að kaupa flugelda, því sé gott að nýta einnig aðra daga. Félagið reki 110 sölustaði um land allt sem eru opnaðir kl. 10. Í dag og á morgun verður opið til kl. 22. Á gamlársdag er opið frá 10 til 16.

„Ég held að salan verði svipuð og í fyrra miðað við hljóðið í kaupmönnum. Það er yfirleitt fylgni á milli sölunnar fyrir jól og sölunnar hjá okkur. Ég held að við verðum með álíka sölu og í fyrra, sem var mjög góð. Við vorum afar sátt í fyrra,“ segir Kristinn spurður út í söluna. Hvað varðar sölutölur segir Kristinn að þær verði ekki gefnar upp.

Þá segir hann að spáin fyrir gamlársdag líti vel út og þá verði fínt flugeldaveður. Ekki skaði að hafa snjóinn því hann auki söluna og skapi góða stemningu hjá fólki. „Við fögnum snjónum og þeirri góðu stemningu sem fylgir honum,“ segir hann.

Fjölskyldupakkar og kappatertur njóta vinsælda

„Það varð mikil breyting eftir hrun en þá fór minna af risatertum og það var bara eðlilegt. Fjölskyldupakkarnir - við erum með nýja útgáfu af þeim - eru klassískir og koma sterkir inn núna. Svo eru kappaterturnar mjög vinsælar,“ segir Kristinn þegar hann er spurður hvaða flugeldar séu vinsælastir þetta árið. Að öðru leyti sé það nokkuð hefðbundið hvað fólk velur sér.

Kristinn segir að félagið finni fyrir miklum og góðum stuðningi meðal landsmanna. „Maður finnur alveg stuðninginn. Fólk kann að meta okkar framlag,“ segir hann að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert