Nubo kominn á Grímsstaði

Hrúturinn Nubo býr á Grímsstöðum á Fjöllum
Hrúturinn Nubo býr á Grímsstöðum á Fjöllum mbl.is/Rax

„Það fór nú ekki svo að Nubo kæmi ekki,“ segir Sigríður Hallgrímsdóttir á Grímsstöðum.

Þannig var að Bragi Benediktsson var á leið heim á Grímsstaði með hrút þegar dóttir hans hringdi með þær fregnir að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hefði hafnað beiðni Huangs Nubos um undanþágu til kaupa á Grímsstöðum á Fjöllum. „Þannig að hrúturinn var bara nefndur Nubo,“ segir Bragi. „Það fór ekki svo að hann kæmi ekki til okkar – hann var bara ferfættur.“

Bragi og Sigríður eru gagnrýnin á ákvörðun stjórnvalda, segja hana vonbrigði og að algjört áhugaleysi hafi ríkt um byggðina á Grímsstöðum þar til núna. Þetta kemur fram í myndríkri frásögn í Áramótablaði Sunnudagsmoggans. Þau segjast ekki hafa ætlað að flytja, heldur búa áfram í húsi sínu á Grímsstöðum og taka þátt í uppbyggingunni sem ráðgerð hafi verið á staðnum. Og þau hefðu gjarnan viljað fá Nubo sem nágranna.

„Það hefði lífgað upp á,“ segir Bragi og sýpur á kaffinu – brosandi. „En kannski hefði hann verið svolítið ónæðissamur. Maður veit það ekki.“

„Það er hætt við því,“ segir hún, „að það hefði eitthvað raskast hádegislúrinn.“

„Síestan,“ segir hann. „Maður veit það ekki.“

Þó að þau ræði Nubo á léttum nótum, þá segjast þau mjög vonsvikin með ákvörðun stjórnvalda. Það búa átta manns á tveimur bæjum á Grímsstöðum. En þegar mest lét um aldamótin 1900 bjuggu þar 100 manns og Bragi segir að staðurinn hafi ekki orðið einangraður fyrr en undir lok síðustu aldar.

„Frá því ég man eftir mér lá straumurinn hérna í gegn, hér var bæði gisting og veitingasala. Þannig að ef eitthvað er, þá var fólk í miklum tengslum við sveitirnar í kring og byggðarlögin, þrátt fyrir fjarlægðir.“

– Hvers vegna þessi mikla fækkun?

„Stærstu mistökin voru gerð árið 1991 þegar fólki var gert að hætta með sauðfé. Þá fluttu fjölskyldur í burtu,“ segir Bragi.

Fremur kuldalegt á Grímsstöðum á Fjöllum
Fremur kuldalegt á Grímsstöðum á Fjöllum mbl.is/Rax
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert