Barn hlaut brunasár í andliti

Því miður verða flugeldaslys um nánast hver áramót.
Því miður verða flugeldaslys um nánast hver áramót. Mbl.is/Eggert

Drengur var fluttur á Landspítalann frá Hvolsvelli í nótt eftir að hann hlaut brunasár í andliti, þegar hann var að sprengja flugelda. Að sögn læknis á barnadeild er líðan hans stöðug. Kallaðir hafa verið til augnlæknir og lýtalæknir til að sinna honum, en hann er sjö ára gamall.

Ekki liggja fyrir nánari upplýsingar um alvarleika meiðslanna, en búið var um sár hans í nótt og nú fyrir hádegið verða þær umbúðir fjarlægðar og frekari meðferð hafin.

Einn annar drengur kom á barnadeildina í nótt vegna flugeldaslyss, en það var vægara. Hafði hann fengið glóð frá flugeldi inn á sig og brennst lítillega. Búist er við að hann fái að fara heim af spítalanum í dag.

Samkvæmt samtali við lækni á bráðavakt slysadeildar Landspítalans komu upp hátt á annan tug mála vegna flugeldaslysa og óhappa í gærkvöldi og nótt en svo virðist sem tilfelli drengsins frá Hvolsvelli hafi verið hið alvarlegasta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert